EFTIRMÁLI „Að láta ekki baslið smækka sig“

EFTIRMÁLI

„Að láta ekki baslið smækka sig“

 

Það var undarleg tilfinning sem fylgdi því að snúa aftur til þings 1. október 2010 eftir hartnær hálfs árs fjarveru. Um leið var það léttir. Þessum sérstaka kafla í lífi mínu var lokið. Nú tæki við eitthvað nýtt. Ég var ekki viss um hvað. Þennan dag þegar ég tók aftur sæti 1. þingmanns Suðurkjördæmis á Alþingi hafði ég þó eitt á hreinu. Dagurinn yrði róstusamur enda hafði verið boðað til mikilla mótmæla.

Ég fann glöggt að það var reiði og beiskja í samfélaginu. Staðan í húsnæðismálum, skuldamálum einstaklinga og atvinnumálum var enn óviðunandi og ekki búið að vinna úr skuldaþrautum heimilanna. Um sumarið hafði ég fundið að samfélagið ólgaði undir niðri, en nú var eins og hin afdrifaríka ákvörðun þingsins um landsdóm hefði komið allri þjóðinni á hreyfingu. Þennan dag var líklegt að beiskja og sárindi myndu gjósa fram við setningu þingsins eins og þegar menn rjúfa stíflu.

Guðlaugur Ágústsson deildarstjóri þingvörslu var fyrsti maðurinn sem ég mætti í þinghúsinu. Hann stökk niður stigann og bauð mig hjartanlega velkominn. Á leið upp í matsalinn rakst ég á Björn Val Gíslason þingmann VG. Hann hafði gengið fram af hörku í stuðningi sínum við landsdómsákærurnar. Við heilsuðumst kurteislega þótt mikið hefði gengið á.

Í salnum sátu þeir Þráinn Bertelsson og Árni Þór Sigurðsson, þingmenn VG, að snæðingi með Róberti Marshall.

Jæja, það er allavega einn við við þetta borð sem vill að ég gangi laus, sagði ég og við hlógum allir.

Höskuldur Kári Schram á Stöð 2 hafði flutt frétt um það að einhverjum félögum mínum í þingflokki Samfylkingarinnar þætti óþægilegt að fá mig til baka. Ég beit á jaxlinn þegar ég gekk aftur inn í þingflokksherbergið þar sem ég hafði verið formaður þingflokks þar til fyrir hálfu ári. En það urðu fagnaðarfundir. Hafi einhverjum þótt það óþægilegt að fá mig aftur fann ég það ekki á neinum. Sem betur fer er þingflokkur Samfylkingarinnar svo vel mannaður að fólk horfir til meginatriða og alvarlegra viðfangsefna, en lætur ekki persónur og sviptivinda ráða afstöðu sinni.

Í viðtali við Björn Þór Sigbjörnssson blaðamann á Fréttablaðinu á þingsetningardegi tjáði ég mig í fyrsta sinn í hálft ár um atburðina, niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og endurkomu mína á Alþingi.

Yfirskrift viðtalsins var Ber ekki kala til nokkurs manns og þar sagði m.a.:

„Mér þykir niðurstaðan dapurleg,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi viðskiptaráðherra, um niðurstöður atkvæðagreiðslu Alþingis um landsdómsmálið.

 

Björgvin kveðst einlæglega ánægður fyrir hönd Árna og Ingibjargar en fyrst og fremst leiður yfir því hvernig þetta fór, „enda ítrekað komið fram að óljóst er hvaða aðgerðir hefðu breytt stöðu mála verulega mánuðina fyrir hrun. Ég held að réttarhöld yfir Geir Haarde hafi ekkert með réttlæti að gera.“

 

Spurður hvort hann efist ekki um að rétt sé af honum að taka sæti á þingi á ný svarar Björgvin því til að þessir atburðir séu að baki og áríðandi verkefni taki við í þinginu.

 

„Ég lýsti því yfir þegar ég fór út af þingi 14. apríl að ég vildi gefa þingmannanefndinni fullt svigrúm til þess að sinna þessu þunga verki og hef í engu truflað störf hennar. Meðal annars með því að tjá mig ekki opinberlega um þessi mál í að verða hálft ár. Nú hefur nefndin klárað sitt verkefni og Alþingi afgreitt tillöguna. Niðurstaðan er fengin. Hún er sú að tillaga um að ákæra mig fyrir landsdóm var felld og þessum kafla er því lokið. Því tek ég sæti mitt á Alþingi á ný í samræmi við yfirlýsingu mína frá því í vor og lyktir mála.“

 

Hvað sem heildarniðurstöðunni líður sitja á þingi 27 menn – þar af þrír í þingflokki Samfylkingarinnar – sem vildu Björgvin fyrir landsdóm. Hann telur þá staðreynd ekki hafa áhrif á störf hans.

 

„Ég ber ekki kala til nokkurs manns í eftirmála þessara atburða og ber fulla virðingu fyrir skoðunum þeirra í þessu máli sem öðrum. Nú sný ég mér að þeim verkefnum sem ég var kjörinn til að sinna af kjósendum í Suðurkjördæmi þegar ég var kosinn 1. þingmaður þess, mörgum mánuðum eftir fall fjármálakerfisins.“

 

Björgvin segir að nú skipti mestu að skapa andrúmsloft sátta og uppbyggingar og halda áfram. Koma þurfi atvinnulífinu af stað og öllum öðrum brýnum verkum sem blasa við. „Við verðum að vinna út frá þeirri stöðu sem uppi er og í það mun ég einhenda mér af fullum krafti.“

 

Strax var ljóst að harka yrði í mótmælunum fyrir utan þinghúsið. Fyrsta eggið skall við hæla Ástu R. Jóhannesdóttur forseta þingsins þegar hún tók á móti Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Moussaieff eiginkonu hans við aðaldyr þinghússins þegar klukkan var að ganga tvö.

Augljóslega var mörgum þingmönnum órótt. Á meðan það eru egg en ekki grjót er þetta í lagi, sagði Jóhanna forsætisráðherra við okkur Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra.

Í dómkirkjunni gekk forseti Íslands virðulega inn eftir gólfinu eins og ekkert hefði í skorist með egg rennandi niður eftir bakinu. Kirkjuvörðurinn kom með klút og þurrkaði af forsetanum áður en hann settist. Fyrir utan kirkjuna fóru lætin langt með að yfirgnæfa ágæta prédikun séra Halldóru Þorvarðardóttur, systur Ólínu alþingismanns. Séra Halldóra var greinilega í geðshræringu þegar hún sté í stólinn enda dundu alls kyns skeyti á rúðum dómkirkjunnar. Að lokum gaf ein rúðan eftir og glerbrotum rigndi yfir fremsta bekkinn. Þá sást glöggt að sumir urðu bókstaflega hræddir enda kirkjan svo gott sem umkringd hópi af reiðu fólki. Lögreglan greindi seinna frá því að mótmælendur hefðu skorið á kaðla sem áttu að halda þeim í hæfilegri fjarlægð.

Lögreglan leiddi okkur þingmenn undir eggjadrífu bakdyramegin inn í Alþingishúsið til þingsetningarinnar. Þeir sem fyrstir gengu, forsetinn, biskupinn og séra Halldóra, urðu harðast úti og það var óhugnanlegt að sjá í fréttunum þegar egg skall á eyra prestsins. Sumir þingmanna hlupu við fót. Almættið hlýtur að vera með mér á þessum degi, hugsaði ég, og gekk beinn í baki án þess að greikka sporið yfir í þinghúsið. Svo reyndist vera. Ég komst klakklaust yfir.

Undir hrópum fólksins á Austurvelli um ræfildóm ráðamanna flaug ýmislegt í gegnum hugann.

Þetta er allavega dramatísk endurkoma, hugsaði ég. Nú er bara að setja undir sig hausinn og byrja aftur. Að baki var átta ára þingseta, ráðherradómur og formennska í þingflokki. Ég var hins vegar kominn til baka. Beiskjulaus og óbrotinn. Vonandi tækist mér að fylgja heilræði Klettafjallaskáldsins: Að láta ekki baslið smækka sig. Það var verkefnið.

Margir hugsuðu greinilega hlýlega til mín. Annan eins fjölda kveðja og stuðningsyfirlýsinga hafði ég aldrei fengið og daginn sem ég tók sæti á Alþingi á ný. Ein var frá forvera mínum í embætti og mér þótti vænt um hana.

„Sæll vertu.

Vertu velkominn til þings aftur eftir vondan tíma. Þú átt eftir að ná þér aftur á strik og ná vopnum þínum. Ég hef oft hugsað til þín og beðið fyrir þér þá vondu daga sem liðnir eru.

Með innilegri kveðju og hvöt,

Jón Sigurðsson

(Framsóknarmaður sem var næstur á undan þér í ráðuneytinu)“

 

Annar góður framsóknarmaður sem hefur reynst mér persónulegur vinur allt frá sameiginlegri lífsreynslu í Vesturheimi um árið sendi mér líka kæra kveðju á þessum degi:

Sæll garpur
Velkominn aftur til þings. Mér finnst ganga vel hjá þér í viðtölum og þú stækka af þeim.
Gangi þér allt í haginn.
kv
Atli Ásmundsson“

Nú var ég sestur aftur á þing sem óbreyttur liðsmaður ríkisstjórnar sem stríðir við sundurlyndi og erfiðustu aðstæður lýðveldissögunnar. Gæti verið verra, hugsaði ég, og gekk óbeygður inn í veturinn eftir tveggja ára linnulítinn barning.

Sárindin eru enn fyrir hendi og ekki gróið yfir þau. En ekki dugir að ganga fram og horfa aftur – við verðum að líta fram á við og marka nýjar brautir í ljósi dýrkeyptrar reynslu.

Að lokum grær og grænkar. Um það er ég sannfærður.

 

AFTUR Á FORSÍÐU