FIMMTÁNDI KAFLI Afsögn

FIMMTÁNDI KAFLI

Afsögn

 

Heiftin í samfélaginu magnaðist í fastri stígandi þetta haust. Liðlega mánuði eftir fall banka og hrun krónunnar voru stjórnvöld að missa tökin á ástandinu. Traustið var farið veg allrar veraldar í reiðiöldunni. Sú ákvörðun að standa vörð um óbreytta yfirstjórn hjá FME og Seðlabanka magnaði mjög upp kröfurnar um að aðrir öxluðu ábyrgð, sem fyrir ráðuneytum fóru.

Þetta var eðlileg krafa, en í okkar lýðræðishefð skorti algerlega fordæmin og fyrstu viðbrögð allra sem í hlut áttu voru að standa storminn af sér.

Þess má geta að þann 11. nóvember mældi Capacent traust á ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Niðurstaðan var sú að 63% aðspurðra sögðust ánægðir með mín störf og rúmlega 50% sögðu hið sama um Geir. Þetta var nokkuð afgerandi niðurstaða og segir sína sögu um það hve blaðamannafundirnir mæltust vel fyrir og að bærilega tókst til við að halda úti samtali við fólkið í landinu um atburðina.

Dómsdagsfréttir um afleiðingar og ástæður hrunsins dundu á almenningi í takt við æðisgengna spádóma um afdrif þjóðarinnar í framhaldinu. Bloggarar, álitsgjafar, einstaka blaðamenn og hluti stjórnarandstöðunnar fóru bókstaflega hamförum. Ríkisstjórninni skyldi komið frá og boðað til kosninga.

Við Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra tókum undir kröfuna um kosningar við litla hrifningu formanna stjórnarflokkanna. Mér blandaðist ekki hugur um að það yrði aldrei sátt um annað en að kjósa að nýju eftir hamfarirnar, en ég taldi besta kostinn að þessi stjórn starfaði áfram fram að því.

Það var undarlegt hlutskipti að standa hinum megin við víglínuna sem myndaðist í þjóðfélaginu. Skýrustu merkin um umfang reiðiöldunnar voru hinir svokölluðu borgarafundir í Háskólabíói. Hinum fyrsta missti ég af – þurfti að fara til útlanda sem staðgengill Ingibjargar Sólrúnar eins og áður er getið. Þann næsta sat ég hins vegar og var það ógleymanlegt og engir fundir þykja mér þungir eða erfiðir síðan.

Fljótlega eftir hrun myndaðist sú skoðun, meðal annars innan stjórnarflokkanna, að það væri mikilvægt að láta einn ráðherra úr hvorum flokki fara úr ríkisstjórn sem táknræna sökudólga fyrir áfallið. Þá væri stjórnin búin að stokka upp og forystumenn hennar gætu setið áfram og stýrt landinu.

Fundirnir í Háskólabíói endurspegluðu þessa stemmningu, en þar var auk mín meðal annars forysta verkalýðshreyfingarinnar. Salurinn var troðfullur af ævareiðu fólki sem heimtaði blóð. Það var sífellt púað og hrópuð alls kyns ókvæðisorð að okkur fram eftir fundi, en þegar leið á hann mildaðist a.m.k. hluti salarins í minn garð. Rætnin og hamsleysið í umræðunni voru áberandi. Nú mátti segja hvað sem var. Stjórnmálamenn voru fyrir mörgum sem skynlausar skepnur sem mátti atyrða og niðurlægja að vild. Landráð og ásakanir um viðlíka athæfi virtust vera orðin að hverdagslegu brúki í umræðunni. Hvaðeina var látið flakka.

Ég gerði mér líklega fyrst glögga grein fyrir því hversu alvarlegt ástandið var að verða þegar ég mætti til ríkisstjórnarfundar sem halda átti í þinghúsinu snemma morguns í desember. Það væri að færast yfir á nýtt stig þar sem ofbeldi og líkamsmeiðingar væru ekki langt undan.

Ég mætti fyrstur ráðherra á fundinn og ætlaði að ganga inn um aðaldyr þinghússins eins og venjulega. Þar voru fyrir 10-15 grímuklæddir einstaklingar og slógu borg um dyrnar til að varna okkur inngöngu. Ekki tók ég aðstæður nógu alvarlega og gekk í áttina að hópnum. Þá gerði sér einn líklegan til þess að vaða í mig en annar hrópaði um leið: Ekki snerta hann. Þá hnippti Björn bílstjóri minn í mig, við gengum frá þinghúsinu og ókum burt. Þetta var einungis reykurinn af réttunum. Reiðin var að taka á sig ofbeldisfyllri mynd og mótmæli að stigmagnast í harkaleg átök.

Ástandið var í pólitísku tilliti orðið stjórnlaust. Mikill þrýstingur hafði byggst upp í þá veru að einhver axlaði sýnilega ábyrgð á þessum ósköpum öllum. Það var fullkomlega skiljanlegt. Á móti því vann eindregið hefðin í íslenskum stjórnmálum. Menn hafa tilhneigingu til að „sitja þetta af sér.“

Einn miðvikudag í byrjun desember var ég nánast ákveðinn í því að segja af mér, til þess að ryðja með einhverjum hætti brautina að uppgjöri og endurheimtum á trausti almennings á stjórnmálunum.

Ég ræddi málið við flesta þá sem nálægt mér standa í pólitík og eru mínir traustustu félagar og vinir þar. Allir réðu mér eindregið frá því að segja af mér. Ég þóttist þó greina á orðavali og raddblæ Jóhönnu Sigurðardóttur í símtali seint um kvöldið, að hún kynni að vera á annarri skoðun. Ekki sagði hún það þó hreint út, líklega í krafti ráðleggingar skáldsins um aðgát í nærveru sálar.

Einn þeirra sem kom niður í ráðuneyti og hitti mig til þess að ræða þessi mál var Kristján Guy Burgess, þá tímabundinn starfsmaður iðnaðarráðherra, en þeir eru nú báðir komnir í utanríkisráðuneytið. Kristján er flinkur maður sem er gott að leita til. Hann taldi ekki rétt að ég segði af mér á þeirri stundu þótt vel gæti komið til þess síðar. Honum þótti fráleitt að ég tæki á mig ábyrgð og sakir fyrir hrun í efnahagskerfinu eins og það lagði sig. Kerfið hefði orðið til áður en við komum til sögunnar og fátt hefði getað orðið því til bjargar á þeim tíma og eftir að alþjóðakreppan skall á af öllum sínum þunga.

Rifjaði Kristján upp ágæta sögu sem Ólafur Ragnar Grímsson hafði oft yfir þegar menn lentu í vanda og kennd er við sprekið og fljótið. Sprekið táknaði tímabundinn vanda sem menn lentu í og virtist ekki ætla að fljóta hjá, eins og sprekið sem fær viðnám við árbakkann og festist. En um síðir losnar um sprekið og það flýtur burt. Hinn þungi straumur fljótsins sér fyrir því.

Sama gilti um stærstu vandamálin í stjórnmálunum. Þau fljóta hjá. Mestu skipti að halda ró sinni og kunna að bíða.

Í þetta sinn flaut sprekið ekki hjá. Það safnaði að sér fleiri sprekum og vatt upp á sig í stóra stíflu. En sagan var góð og ráðið vel meint á þeirri stundu.

Þunginn í ráðleggingum þeirra sem ég leitaði til um ráð á þessum tíma fólst í því, að annars vegar voru margir sannfærðir um að þá færi af stað hrina afsagna sem yrði til þess að stjórnin félli. Hins vegar velvilji í minn garð þar sem mörgum þótti ég vera að axla ábyrgð á áralangri röð mistaka, fyrirhyggjuleysis og óstjórnar í efnahagsmálum sem ég bæri bara afskaplega takmarkaða eða enga raunverulega ábyrgð á.

Dagarnir voru mér þungir í skauti. Það var stundum erfitt að vakna á morgnana. Við þessar aðstæður upplifði ég mikið óöryggi, en fór að ráðum félaga minna, ekki síst þar sem nær allir voru á einu máli. Sumum fannst líka að það stæði öðrum í ríkisstjórninni nær að axla ábyrgðina.

Í byrjun desember 2008 skrifaði Andrés Jónsson almannatengill pistil sem mér þótti vænt um. Hann hét Viðskiptaráðherra sem var dónalegur og afskiptur og þar sagði meðal annars:

“Mér fannst Björgvin G. Sigurðsson svara nokkuð vel í viðtalinu á Stöð 2 í morgun.

Ég óttast að þetta kunni að hljóma melódramatískt, en ég skynja í honum einhvern djúpstæðan ærleika. Hann segir hlutina eins og þeir eru, og þorir líka (ólíkt orðspori sem fór af honum í upphafi stjórnmálaferils hans) að segja það sem fólk vill ekki heyra.

Það er hins vegar nettur pólitískur óþefur af kröfum Gylfa Arnbjörnssonar um afsögn Björgvins. Maður hefur grun um einhverja innanflokkspólitík í því hjá honum, án þess að ég viti nákvæmlega hvernig hún liggur.

Hvað á svona orðalag t.d. að þýða sem Gylfi notar:

„Björgvin og Árni eiga að segja af sér, hvort sem þeir hafa brotið lög eða ekki.“

Það er hins vegar ekki lógískt að það sé Björgvin, frekar en það var lógískt að Þórólfur Árnason segði einn af sér í olíusamráðinu.

Málinu þar sem að skítaþefinn lagði út af ýmsum ráðherraskrifstofum Sjálfstæðismanna og Davíð Oddsson lýsti því yfir opinberlega að ekki ætti að sekta olíufélögin.

Ég get upplýst það að sumir vina minna í viðskiptalífinu (flestir flokksbundnir sjálfstæðismenn) voru ekki sérlega kátir með nýja viðskiptaráðherrann, fyrstu mánuði hans í starfi.

Þeim þótti Björgvin dónalegur að tala um krónuna eins og hann gerði og að hann skyldi opinskátt segja að evra hlyti að þurfa að verða framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar.

Það hentaði ekki Sjálfstæðisflokknum að tala um gjaldeyrismálin og viðskiptalífið taldi réttast að þegja í meðvirkni með flokknum. Enda var flokkurinn eins konar stjórnmálaarmur viðskiptalífsins, þó að það kunni hugsanlega að breytast eitthvað í framtíðinni. Þessir tveir valdamiklu hópar vildu ganga í takt, og viðskiptaráðherrann vinstrisinnaði truflaði þessa taktgöngu.

Neytendamál voru ofarlega á borði Björgvins frá upphafi.

Krafa Björgvins um niðurfellingu hins alræmda seðilgjalds var t.d. ekki vinsæl í bankakerfinu. Reyndar kjósa sumar fjármálastofnanir enn að hunsa þessi tilmæli viðskiptaráðherrans.

Aðstoðarmaður Björgvins, Jón Þór Sturluson, var líka gagnrýndur í mín eyru, fyrir að tala stórkarlalega í gleðskap hjá einum bankastjóranum. En Jón Þór mun hafa talað um mögulega nauðsyn á frekari ríkisafskiptum af fjármálamarkaðnum.

Steininn tók loks úr þegar að Björgvin sjálfur, í viðtali við Ríkissjónvarpið í júní síðastliðnum, notaði orðið gjaldþrot í sömu setningu og viðskiptabankana. Þá trompuðust margir forkólfar viðskiptalífsins og töldu slíkt tal vera stórkostlega óábyrgt af viðskiptaráðherra þjóðarinnar. Kunningjar mínir froðufelldu yfir þessari ótætis sendingu úr Samfylkingunni, sem Björgvin væri.

Það er spurning hvort við værum jafn illa stödd í dag, ef afstaða fleiri ráðamanna hefði verið meira í takt við Björgvin? Ef þeir hefðu útvegað þjóðinni nothæfan gjaldmiðil, í stað þess að sýna stórkostlega vanhæfni, með því að mæla fyrir stofnun alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar hér á landi, með krónuna sem millilið.

Kannski er þetta allt sem hér er upptalið, meginaástæða þess að valdastrúktur Sjálfstæðisflokksins ákvað að hunsa Björgvin í aðdraganda bankahrunsins og snúa sér frekar til Ingibjargar Sólrúnar og síðar til Össurar.

Að fyrsti vinstrisinnaði viðskiptaráðherrann í áraraðir, hafi bara verið alltof pólitískt veikur gagnvart auðvaldsstéttunum sem réðu hér lögum og lofum á síðustu árum.

Allir sem hafa nef fyrir pólitík sáu að Björgvin var ekkert sérlega sterkur framan af. Hann virkaði einangraður í ríkisstjórninni.

Þegar að krísan skellur hins vegar á, þá er Ingibjörg Sólrún veik og engin leið að ganga alveg framhjá viðskiptaráðherranum, yfirmanni fjármálaeftirlitsins. Hann varð því fulltrúi Samfylkingarinnar á blaðamannafundunum.

Og mér fannst hann standa sig vel í því. Ólíkt Geir, þá reyndi Björgvin að segja þjóðinni eitthvað.

Trúverðugleiki allra stjórnmálamanna hefur borið gríðarlegan hnekki. Og þessi kreppa hefur slíkar pólitískar hliðarverkanir, að hún megnar að fella þá alla með tölu. En sömuleiðis sjáum við nú hvað í þeim býr. Ég hygg að Björgvin G. Sigurðsson verði áfram í forystu stjórnmála hér, eftir að öllu því uppgjöri lýkur, sem er framundan.

Og lokum skal ítrekað að Björgvin er í hópi tveggja ráðherra og nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar sem hafa tjáð þá sannfæringu sína að boðað verði til kosninga áður en kjörtímabilið er á enda. Ég vil frekar fjölga slíkum talsmönnum við ríkisstjórnarborðið, en fækka þeim.”

Í hléi hátíðanna frá daglegu amstri sótti það í sífellu á mig að ástandið væri bara að versna og tæki á sig andstyggilegri myndir nánast frá degi til dags. Þá veikti það stöðu mína og staðfestu að ég fann að innan úr herbúðum stjórnarinnar var byrjað að leka því til fjölmiðlanna að það ætti að „fórna“ okkur Árna fjármálaráðherra. Þannig hugsuðu sér einhverjir að hægt væri að kaupa stjórninni frið og jafnvel framhaldslíf.

Í þröngum hópi var rætt um að hrókera ráðherrastólum og talað í fullri alvöru um að ég færi yfir í menntamálaráðuneytið. Ég veit fyrir víst að Þorgerður Katrín var þeirrar skoðunar, svo og Geir. Eitt kalt vetrarkvöld í þinginu færði hann í tal við mig mögulega uppstokkun á ríkisstjórninni sem fæli í sér að ég færi í menntamálaráðuneytið, Ingibjörg Sólrún í fjármálin og Þorgerður í utanríkisráðuneytið. Hik kom á framvindu þessa máls og sjálfstæðismenn sögðu mér að það væri einkum vegna efasemda formanns Samfylkingarinnar. Klárt var að rætt var af alvöru um einhvers konar uppstokkun og til stóð að klára hana fyrir jólahlé þings og stjórnar.

Eftir áramót var ég orðinn staðráðinn í að segja af mér embætti. Mælirinn var fullur. Hin pólitíska innistæða var búin. Þetta gekk einfaldlega ekki lengur.

Álagið á fjölskylduna, mig sjálfan og starfsfólk ráðuneytisins hafði verið gríðarlegt. Einatt dáðist ég að því hvað fólkið í ráðuneytinu stóð sig vel þegar mest á gekk. Það var hringt út nánast á öllum tímum sólarhrings alla daga vikunnar ef því var að skipta. Góð dæmi um þetta þolgæði og þessa hollustu var frammistaða þeirra Elísabetar Árdísar Sigurjónsdóttur ritara míns og Björns Hannessonar bílstjóra. Þau voru ómetanleg í þessu dapurlega ati öllu saman.

Eitt var beint vinnuálag og langir dagar. Hitt var vaxandi ólgan í samfélaginu og það í hve miklum mæli hún beindist að málaflokkum og undirstofnunum viðskiptaráðuneytisins. Henni fylgdi harkalegra áreiti með hótunum um ofbeldi og illvirki. Seinni partinn í október komst til dæmis reiður maður í gegnum símkerfið og að Árdísi ritara og sagðist myndu sitja um mig og börnin mín og tiltók staðarhætti og aðstæður. Hann vissi nákvæmlega hvar við byggjum, hvenær ég færi heim og börnin á leið til og frá skóla.

Ég gerði yfirleitt ekkert með slíkar hótanir, en nokkrar voru svæsnar. Þessi var fram borin undir nafni og símanúmeri. Þær ljótustu lét starfsfólkið ganga áfram til lögreglu að mér forspurðum. Þetta sífellda og aukna áreiti reyndi mest á starfsfólkið sem vann sína vinnu við mjög erfiðar aðstæður. Þegar á leið fann ég að það óttaðist stundum að bókstaflega yrði gert áhlaup á ráðuneytið og reiður múgur æddi þar inn.

Traust og trúnaður á milli ráðamanna og þorra þjóðarinnar var á þessum tíma farið veg allrar veraldar. Mér var orðið ljóst að það yrði ekki endurheimt nema við stæðum fyrir því að skipt yrði um yfirstjórn stofnana og fólk fengi að kjósa á ný. Nýtt þing hefði þá á bak við sig umboð þjóðar eftir efnahagsáfallið.

Jólin og áramótin róuðu engan. Það sauð á fólki og mótmælin stigmögnuðust. Þegar við komum til þingfundar þriðjudaginn 20. janúar var ljóst að nú yrði lítt við ráðið. Þúsundir söfnuðust að þinghúsinu og mótmæltu hástöfum. Þegar spurðist út að fyrsta mál þingfundar væri frumvarp Sigurðar Kára um að einkavæða áfengissölu í landinu varð allt vitlaust og málið var notað sem órækt dæmi um taktleysi og ómennsku stjórnvalda. Þjóðin var á valdi ótta og örvæntingar um framtíð sína, en Alþingi ræddi um einkavæðingu áfengissölunnar. Skyldi engan undra að upp úr skyldi sjóða.

Guðni Th. Jóhannesson segir svo frá ástandinu á Austurvelli og Alþingi þennan dag í bók sinni, Hruninu:

“Úti fyrir höfðu mótmælin færst í aukana. Skyri var slett og eggjum hent, bæði á þinghúsið sjálft og Skálann vestan megin. Yfirmönnum lögreglu á vettvangi, bæði innan og utandyra fannst gamanið farið að kárna. Við mótmælin þennan dag og þá næstu voru aldrei færri en 50-60 lögregluþjónar á vettvangi og flestir urðu þeir um 120…

Í garðinum hafði verið kveikt á einhvers konar reyksprengju svo appelsínugulan mökk lagði yfir. Meira máli skipti þó að mati lögreglu að glerveggur gangsins á milli Skála og þinghúss myndi rofna, yrði ekkert að gert. Brestir voru þegar komnir í einhverjar rúður, ein brotnaði og síðar um daginn gekk sú saga meðal sumra mótmælenda að að lögregla hefði haft grunsemdir um eða heimildir um að einhver 50 manna hópur ætlaði sér að ryðjast inn í þinghúsið…

Meðan á þessu orðaskaki stóð varð fjandinn laus utandyra. Mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fannst augljóst að leiðtogar Vinstri grænna og einörðustu aðgerðasinnar hefðu tekið höndum saman, og til merkis um það væru meðal annars bendingar og símtöl Álfheiðar Ingadóttur í glerganginum milli þinghúss og Skála.“ (bls. 310-311)

Í mótmælendahópnum var fjöldinn allur af venjulegu fólki sem var ævareitt yfir því hvernig komið var fyrir landinu og óttaðist um afkomu sína og barnanna sinna. Sá ekkert nema svartnætti framundan. Þarna í hópnum greindi ég andlit margra gamalla vina og samferðamanna. Skólafélaga, æskuvina og vinnufélaga. Þetta fólk var búið að fá nóg.

Þinghúsið dúaði bókstaflega á veikum grunni sínum þegar mótmælin jukust skömmu eftir að þingfundur hófst eftir hádegi. Atgangurinn var slíkur að ég var viss um að eitthvað gæfi eftir að lokum og reitt fólk streymdi inn og stöðvaði fund Alþingis. Enda mátti litlu muna og það var hræðilegt að fylgjast með því innan frá hvað var að gerast og hvað lögreglan þurfti að leggja á sig til þess að verja þingið og þingmenn.

Glöggt mátti greina ótta í andlitum starfsmanna þingsins og þingmanna sjálfra. Skyldi engan undra og ég er viss um að margir starfsmenn þingsins voru lengi að jafna sig eftir þessa lífsreynslu þar sem þau upplifðu sig í bráðri hættu.

Til að komast heim um kvöldið hafði ég skilið bílinn eftir í bílastæðakjallara þingsins, en hann var nú lokaður inni vegna mótmælanna. Ég tók bílaleigubíl til að komast heim. Lengi á eftir spurði Elísabet litla dóttir mín mig af hverju ég hefði ekki komið heim á bílnum, en það var erfitt að útskýra fyrir barninu hvað gekk á í vinnunni hjá pabba hennar, þótt hún og Guðrún Ragna systir hennar hefðu í sífellu yfir frasann fræga „vanhæf ríkisstjórn,“ sem gekk eins og síbylja í sjónvarpinu í fréttum af búsáhaldabyltingunni á Austurvelli.

Föstudaginn 23. janúar fórum við María Ragna á árlegt þorrablót Gnúpverja í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Með okkur voru miklir vinir úr Hafnarfirði, hjónin Árni Björn Ómarsson og Borghildur Þórisdóttir. Við Árni höfum verið vinir frá því að við unnum saman á Vikublaðinu, sem Alþýðubandalagið gaf út um skeið, en þar byrjuðum við Róbert Marshall sem blaðamenn á unga aldri.

Þorrablótið var skemmtilegt að vanda. Ég ræddi mín mál ekki við nokkurn mann en það mallaði í undirvitundinni.

Þegar leið á blótið gekk ég út fyrir dyr félagsheimilisins í Árnesi. Þar sem ég rölti um í fallegu frostveðrinu greip mig undarlega sterk frelsistilfinning. Þarna var ég staddur á slóðum bernskunnar innan um fjölda manns sem ég hafði þekkt meira og minna alla ævina, en hundrað kílómetra í vesturátt logaði höfuðborgin í vaxandi bræði yfir efnahagshruninu og hluti þeirrar heiftar beindist beint gegn mér sem einu af andlitum stjórnarinnar í landinu.

Ekkert er þess virði að það ræni mann ró og lífsánægju. Ég hætti um helgina, hugsaði ég. Ég fann að innra með mér hafði ég tekið endanlega ákvörðun en geymdi hana með sjálfum mér í sólarhring enn.

Á laugardagskvöldinu var ég endanlega ákveðinn og í þetta skiptið ætlaði ég ekki að ráðslagast við neinn, heldur tilkynna þeim sem næst mér stæðu um ákvörðunina og kynna hana síðan á blaðamannafundi. Ég ætlaði að fara og það strax morguninn eftir. Það var undarleg tilfinning en henni fylgdi mikill léttir og frelsi.

Þegar Árni Björn heyrði í fjölmiðlum af afsögn minni spurði hann forviða: Hvað lét Björgvin eiginlega ofan í sig á blótinu? Von að hann spyrði, en Árni hafði alltaf verið einbeittur á móti því að ég segði af mér og axlaði þannig að hans mati annarra manna afglöp langt aftur í tímann.

Síðla kvölds hringdi ég í Jóhönnu Sigurðardóttur og Össur Skarphéðinsson. Sagði þeim af ákvörðun minni og að ég myndi halda blaðamannafund fyrir hádegi daginn eftir, á sunnudegi, og tilkynna hana. Það kom á þau, en ég held að báðum hafi að einhverju leyti verið létt. Nú yrði hoggið á hnútinn í óbærilegri stöðu sem gerði ekkert annað en að versna frá degi til dags.

Jóhönnu varð mjög um í símtalinu, en hún þakkaði mér innilega fyrir og sagði að þetta væri orðið óþolandi ástand, þótt það væri um leið grátlegt að það kæmi í minn hlut að axla ábyrgð á kerfi sem aðrir hefðu byggt upp og við hefðum ætlað okkur að breyta í grundvallaratriðum.

Aðra hringdi ég ekki í það kvöld, utan einn góðan vin sem var Karl Th. Birgisson, til þess að ræða ákvörðunina við einhvern sem ég treysti en stóð utan mestu hringiðunnar. Hann var mér sammála.

Klukkan átta morguninn eftir tilkynnti ég Jónínu Lárusdóttur ráðuneytisstjóra um hvað í vændum væri, þá Jóni Sigurðssyni, Jónasi Fr. Jónssyni, Jóni Þór Sturlusyni, Geir Haarde og loks Ingibjörgu Sólrúnu. Þá lét ég Tómas Þóroddsson, vin minn og kosningastjóra prófkjöra minna, foreldra mína og bræður frétta af afsögninni áður en fundurinn hófst. Fleiri gat ég ekki talað við þótt glaður vildi.

Klukkan ellefu hófst fundurinn í ráðuneytinu og las ég þar eftirfarandi tilkynningu sem var bréf mitt til forsætisráðherra.

Hæstvirtur forsætisráðherra,

 

Ég biðst í dag lausnar frá embætti viðskiptaráðherra í 2. ráðuneyti þínu. Jafnframt hef ég kynnt þá ákvörðun mína formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins og mun hann segja af sér í kjölfar þessa. Þá hef ég óskað eftir því við stjórn Fjármálaeftirlitsins að hún gangi frá starfslokum við forstjóra eftirlitsins og í kjölfarið segi sér.

 

Mér var sýnt mikið traust þegar ég var útnefndur ráðherra í ríkisstjórn þinni og gekk til verks í fullvissu þess að hún gæti nýtt stóran meirihluta sinn á Alþingi til þess að koma fram mikilvægum umbótum. Ég kveð ríkisstjórnina reynslunni ríkari og þakka fyrir góð persónuleg samskipti.

 

Frá því að hin alþjóðlega lánsfjárkreppa skall á hefur ríkisstjórnin gripið til víðtækra aðgerða til að takmarka tjón heimila og atvinnulífs. Í þessi verkefni var ráðist af brýnni þjóðarnauðsyn til að tryggja að hér myndaðist ekki neyðarástand sem leitt hefði til enn frekari hörmunga fyrir samfélagið allt.

 

Jafnframt þessum bráðaaðgerðum var ljóst að skapa þyrfti nýja samfélagslega sátt, þar sem traust ríkir um leikreglur og lýðræðisleg vinnubrögð, og að lagðar yrðu nýjar línur fyrir íslenskt efnahagslíf og stjórnkerfi. Þetta hefur ríkisstjórninni mistekist. Með ákvörðun minni í dag vil ég axla minn hluta af ábyrgðinni á því.

 

Ástæða ákvörðunar minnar er sú sannfæring mín að nauðsynlegt sé að ryðja brautina fyrir uppgjör og uppbyggingu sem byggi á trausti almennings. Forsendur fyrir því að skapa frið og traust í samfélaginu til endurreisnar eru meðal annars þær að stjórnmálamenn og stjórnendur stofnana samfélagsins axli ábyrgð.

 

Það er skoðun mín að stjórn Fjármálaeftirlitsins og starfsmenn stofnunarinnar hafi unnið mikið og gott starf við að stjórna uppgjöri á gömlu bönkunum og leggja grundvöll að nýrri bankastarfsemi í landinu. Efasemdum um hlut stjórnar og stofnunar í aðdraganda bankahrunsins verður hins vegar ekki eytt fyrr en öll kurl koma til grafar og ljóst er að hvorki mun ríkja friður né traust um starfsemina að sinni.

 

Ég tel því rétt að ráðherra bankamála og stjórn Fjármálaeftirlits víki til þess að skapa nýjar forsendur fyrir árangursríku starfi.

 

Ég óska þér velfarnaðar og sigurs í baráttu við erfiðan sjúkdóm og vona að ríkisstjórn og Alþingi takist að ráða fram úr vanda þjóðarinnar á farsælan hátt.

 

Með vinsemd og virðingu,

 

Björgvin G. Sigurðsson

 

Þegar forseti lýðveldisins sá yfirlýsinguna frá mér á hann að hafa sagt að þetta lifði engin ríkisstjórn af. Hún yrði farin fljótlega eftir afsögn mína. Sama hafði sungið í eyrum mínum allt haustið. Ef þú segir af þér, þá fellir þú stjórnina. Þá hrein það á mig og ég vildi ekki valda því á þeim örlagastundum, en nú var það að baki og mér var nokk sama. Ef hún lifði þetta ekki af, þá væri henni ekki ætlað langlífi.

Við afsögn minni fékk ég gríðarlega sterk viðbrögð úr öllum áttum. Þrátt fyrir allt kom hún sem þruma úr heiðskíru lofti og í reynd var þarna rofin hefð um að ráðherra segði ekki af sér af hreinum pólitískum ástæðum til að axla ábyrgð á því sem aflaga fer í hans málaflokki.

Fjölmargir sögðu við mig að ríkisstjórnin myndi ekki lifa sólarhringinn eftir þetta. Því yllu meðal annars þau tilmæli mín að stjórn FME viki þótt stjórnskipunarlega hefði ég ekki vald til að víkja henni frá. Nú væri boltinn hjá Sjálfstæðisflokki og Seðlabanka. Stæðu þeir áfram vörð um Davíð gæti Samfylkingin aldrei annað en farið úr ríkisstjórninni og það strax eftir helgina. Skjólið sem stjórnin og Seðlabankinn höfðu haft af FME var farið.

Morguninn eftir var loft lævi blandið á fundi þingflokks. Ingibjörg Sólrún fann að því við Össur að ég hefði ekki sagt af mér í samráði við hana og væri hún ósátt við það. Nefndi hún þó afsögn mína ekki einu orði á fundi þingflokksins, en svo gott sem allir þingmenn tóku til máls um afsögn mína og lýstu ánægju með að ráðherra úr Samfylkingunni axlaði ábyrgð með þessum hætti.

Skúli Helgason, nú þingmaður Samfylkingarinnar en þá framkvæmdastjóri flokksins, skrifaði grein sama dag um afsögn mína sem mér þótti afar vænt um enda var þar drengilega mælt að hætti Skúla.

Þar segir meðal annars: „Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur höggvið á hnútinn í þeirri pattstöðu sem einkennt hefur íslensk stjórnmál að undanförnu. Með afsögn sinni og ákvörðun um að hreinsa til í yfirstjórn FME gefur hann tóninn fyrir þá löngu tímabæru hreingerningu sem Samfylkingin hefur barist fyrir innan ríkisstjórnarinnar undanfarna mánuði. Krafan um endurnýjun í yfirstjórn Seðlabanka Íslands verður nú enn háværari og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki annan kost en að svara því kalli ef hann vill eiga sér viðreisnar von.

Björgvin leggur sitt af mörkum til þess að breyta pólitískri siðmenningu landsins með ákvörðun sinni. Afsögn hans er ekki staðfesting á einhverskonar afglöpum eða sekt heldur fyrst og fremst viðurkenning á þeirri staðreynd að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að mynda það trúnaðarsamband við þjóðina sem er forsenda þess að endurreisn samfélagsins geti átt sér stað í sæmilegum friði… Björgvin vill hinsvegar skapa vinnufrið um ráðuneyti bankamála og FME í þeim krefjandi verkefnum sem framundan eru og ættu fleiri að fara að fordæmi hans.

Björgvin er maður að meiri fyrir ákvörðun sína og það er mál margra að hann hafi sinnt starfi sínu með sóma undanfarna mánuði við afar erfiðar aðstæður.“

Þeir sem tóku ákvörðun minni verst voru þeir sem ekki máttu til þess hugsa að rýma efstu hæðina í Seðlabankanum. Vera mín og stjórnar FME eftir hrun var alltaf skjól fyrir Davíð Oddssson. Nú var fokið í það og einsýnt að Samfylkingin gæti ekki setið áfram í ríkisstjórninni nema yfirstjórn Seðlabankans færi líka.

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur skrifaði um málið daginn eftir í reglulegum dálki sínum í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni Ótrygg er ögurstundin. Hann hitti á hánótuna í þessari grein og rammaði ágætlega inn sumt af því sem bærðist með mér þessar vikurnar. Ég var ungur ráðherra í mesta ólgusjó okkar stjórnmálasögu án nokkurra fordæma til þess að líta til.

Þeir eldri litu flestir til hefðarinnar og hún var sú að menn sátu á meðan sætt var. Sprekið hlyti að fljóta burt með straumnum. En það var ekki svo og mest sé ég eftir að hafa ekki hlustað á eigin sannfæringu og hætt miklu fyrr á sömu forsendum. En ég er stoltur af því að hafa sagt af mér þótt það hafi líklega orðið stjórninni endanlega að aldurtila.

Í grein sinni segir Guðmundur Andri meðal annars:

Björgvin G. Sigurðsson tók af skarið um síðir. Hann reif sig frá fornum ódyggðum valdsins og sagði af sér af sjálfsdáðum. Og skráði þar með nafn sitt á spjöld sögunnar með því að verða fyrstur íslenskra ráðherra til þess að segja af sér vegna þess hvernig fór í málaflokki sem hann bar ábyrgð á í ráðherratíð sinni. Hingað til hafa ráðherrar á Íslandi nánast eingöngu sagt af sér tilneyddir…

Björgvin hagaði sér nú einsog hann teldi sig þurfa á trausti þjóðarinnar að halda en ekki bara flokksins einsog löngum hefur tíðkast hér í þessu klíkuræði… því hann hefur hér sett nýtt fordæmi í stjórnmálasögu landsins.

Ingibjörg Sólrún tók afsögn minni vel út á við. Sagði í samtali við Morgunblaðið að hún hefði komið sér á óvart og staðfesti að ég hefði staðið mig vel í embætti.

Einnig sagði í fréttinni: „Hún sagði jafnframt að þetta væri algjörlega hans ákvörðun og með henni, og ósk um að stjórnendur FME víki, væri hann að snúa kröfunni á fleiri,þar á meðal stjórn Seðlabankans.“

Sjálfur var ég sáttur. Bæði við frammistöðu mína í gegnum fjóra hrikalega mánuði og það að hafa sagt af mér ásamt forystu og stjórn FME. Við öxluðum ábyrgð þegar aðstæður kröfðust þess.

Mér leið þó illa yfir því að hafa orðið til þess að Jón Sigurðsson og Jónas Fr. Jónsson fóru vegna afsagnar minnar. Ég kunni einkar vel við þá og hafði átt við þá gott samstarf frá falli bankanna. Jón var auðvitað sár yfir málalokum, en það var ekki í mínu valdi frekar en hans að stjórna þeirri röð atvika sem höfðu orðið til þess að stjórnvöld og stofnanir þeirra voru rúin trausti. Fyrir honum ber ég mikla virðingu og er stoltur af því að hafa sem ráðherra fengið hann til þess að taka við formennsku í FME í ársbyrjun 2008. Hvorugur okkar vissi þá að það var alltof seint til þess að breyta einhverju um hina örlagaríku atburði sem fylgdu í kjölfarið.

Jón var svo, eins og ég hef áður lýst, bókstaflega ómetanlegur í eftirmála efnahagshrunsins við úrvinnslu og neyðaraðgerðir, sem hann stýrði að stórum hluta vegna hinna miklu valdheimilda sem Fjármálaeftirlitinu voru fengnar.

Hvað mig snerti var teningunum kastað. Ég var farinn úr ríkisstjórn.

Síminn hringdi án afláts eftir blaðamannafundinn. Ég hélt beint heim á Selfoss úrvinda af þreytu og tilfinningarótinu sem þessu fylgdi. Mín beið að fara með Elísabetu, yngsta barnið okkar Maríu, í barnaafmæli til bestu vinkvenna sinna, tvíburanna Karítasar og Sigurbjargar Hróbjartsdætra, sem áttu þriggja ára afmæli þennan dag. Hún aftók að fara ein. Ég skyldi fara með henni. Elísabetu get ég aldrei neitað um neitt og þremur tímum eftir að ég hafði sagt af mér ráðherraembætti í beinni útsendingu var ég kominn í barnaafmæli á Selfossi. Foreldra tvíburanna þekkti ég ekki mikið, en kannaðist sem betur fer við þau og vissi að voru indælisfólk.

Móðir tvíburanna heitir Hróðný Hauksdóttir og er fyrrverandi bæjarfulltrúi á Selfossi og systir þeirra Vigdísar Hauksdóttur þingkonu og Margrétar Hauksdóttur, eiginkonu Guðna Ágústssonar fyrrum Framsóknarforingja.

Þetta reyndist hinn besti dagur. Þau tóku mér einstaklega vel við þessar sérstöku aðstæður. Ég slökkti á símanum og naut þess að sitja í skjólinu á heimili þeirra á meðan dóttir mín skemmti sér í fyrsta afmælinu sem hún fór í á ævi sinni utan heimilis okkar. Með okkur Hróðnýju og Hróbjarti Eyjólfssyni tókst hinn besti vinskapur eftir þessi eftirminnilegu fyrstu kynni og þykir mér einkar vænt um velviljann sem þau sýndu mér þennan sérstaka dag í mínu lífi.

 

SEXTÁNDI KAFLI Skemmtilegt skítadjobb