FIMMTI KAFLI Biðraðir og bankaáhlaup

FIMMTI KAFLI

Biðraðir og bankaáhlaup

 

Það sem eftir lifði vikunnar var allt á hverfanda hveli. Allir helstu vegvísar um þróun mála voru slæmir. Gengið hélt áfram að falla dag frá degi, skuldatryggingaálag að hækka og á verðbréfamarkaðnum hafði myndast versta hugsanlega ástand: Enginn vissi neitt, allir voru jafnskelkaðir og ómerkilegustu kviksögur hreyfðu milljarða í pappírsverðmætum til og frá. Flest þó aðeins í eina átt, lóðbeint niður á við.

Þegar við komum út af ríkisstjórnarfundi föstudaginn 3. október var óvissan um framvindu mála orðin illbærileg og spennan magnaðist nánast frá klukkustund til klukkustundar. Fjölmiðlarnir spurðu í forundran hvað væri eiginlega að gerast og skyldi engan undra eftir atburði síðustu daga vikna.

Hrun var á alþjóðamörkuðum, þjóðnýtingu Glitnis fylgdu blóðug átök milli hinna bankanna og spádómar um eftirmál hennar voru hvorki bjartir né fagrir. Við blasti að hún var líklega upphaf að falli hluta bankakerfisins. Hvað færi með í svartholið var undir ímyndunarafli hvers og eins komið en engan óraði fyrir því algjöra kerfishruni sem varð.

Eftir ríkisstjórnarfundinn gaf enginn ráðherrana kost á viðtali. Eftir fundinn fór ég upp á aðra hæð stjórnarráðshússins í stað þess að fara beint fram í anddyri eins og venjulega. Tilgangurinn var að hitta Tryggva Þór Herbertsson efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, sem hafði komið sér fyrir þar.

Við áttum spjall saman um stöðu mála á þessu yfirspennta augnabliki og veltum upp því sem mögulega væri í vændum. Tryggvi var rólegur og brattur eins og hans er von og vísa. Enda var starfi hans á þessari stundu að halda yfirsýn yfir málin og miðla rósemi og upplýsingum út um víða veröld.

Þegar ég kom aftur niður biðu þar allir landsins fjölmiðlar. Ég ákvað eins og næstu mánuði að tala við þá og segja einfaldlega það sem ég best vissi og mátti kunngerast. Þeirri stefnu hélt ég mánuðina eftir hrun og var mjög aðgengilegur fjölmiðlum. Fyrir það kunnu mér margir þakkir, en það var erfitt þegar á leið og ég sá eftir því, þótt ég telji núna það hafa verið rétt af mér. Það veitti ekki af í allri þögninni og þokunni að einhver legði sig fram við að tala við fólkið í landinu í gegnum miðlana.

Spurningar blaðamannanna drógu vel fram stemmninguna sem hafði myndast frá því að Glitnir var tekinn yfir. Lokast landið og er allt að fara? má segja að hafi verið inntakið í spurningunum og maður sá á þeim hvað fólki var órótt og að óttinn við hvað væri í vændum fór ört vaxandi. Farið var að tala um vöruskort. Hversu lengi gætum við greitt fyrir innflutning á nauðsynjum, eldsneyti, lyfjum og matvöru ef til þess kæmi að landið lokaðist?

Sjálfur var ég auðvitað jafnóviss og skelkaður vegna framvindu mála og flestir aðrir. Það þýddi bara ekkert að láta eftir sér endalausar hugrenningar um hvaða svartnætti gæti verið framundan ef allt færi á versta veg. Nú var bara eitt að gera; varna því að það versta gerðist.

Eftir þennan fund hélt ég í ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu þar sem við ráðherrarnir fjórir héldum til meira og minna næstu daga. Það vorum við Össur, Geir og Árni. Ég tók hótelherbergi í bænum um helgina þar sem ég rétt fleygði mér um hánóttina, annars var unnið meira og minna allan sólarhringinn. Helgin var dýrmætur tími þar sem bankar og markaðir voru lokaðir eftir skelfilega viku á alþjóðlegum mörkuðum. Síðasta tækifærið til þess að bjarga bönkum frá falli og samfélaginu frá miklum vanda var nýtt til hins ítrasta.

Alla helgina var sem umsátur fjölmiðlahers um ráðherrabústaðinn. Beinar útsendingar og sífellt beðið frétta af „aðgerðapakka“ og björgunaraðgerðum stjórnvalda í samstarfi við bankana, lífeyrissjóði og vinnumarkaðsfulltrúa.

Rætt var um samkomulag við bankana um að þeir og lífeyrissjóðir seldu eigur erlendis og kæmu heim með fjármagnið til þess að styrkja krónuna og minnka efnahagsreikninga sína erlendis, allt að 200 milljörðum króna. En allt var þetta orðið of seint og óhemjuflókið úrlausnar við þáverandi aðstæður á mörkuðum.

Geir gerði sitt besta til þess að skapa einhvers konar ró. Þó blasti við úr hverju viðtali við hann að lítið var sagt um raunverulega stöðu mála og enn minna um hvað gera skyldi til þess að bæta hana.

Nokkru síðar á fundi í sama húsi sagði Sturla Pálsson sérfræðingur í Seðlabankanum mér að föstudaginn fyrir þessa helgi hefðu þeir verið hársbreidd frá því að klára seðlaforðann. Úttektir úr bönkunum voru margfaldar á við það sem venja var á föstudegi og aka þurfti með aukasendingu norður á Akureyri. Síðustu seðlarnir fóru í umferð og horfði til þurrðar.

Staðreyndin var sú að bankaáhaup átti sér stað á Íslandi föstudaginn 3. október 2008. Það var einskær heppni að þetta var á föstudegi og við tók helgi með tveggja daga lokun bankanna áður en þeir tæmdust af fé. Við lá að vísa þyrfti fólki frá og neita um úttektir. Svo skammt vorum við frá raunverulegu neyðarástandi þennan dag og þeirri skelfingu sem því hefði fylgt. Margar vikur tekur að prenta og koma til landsins nýju upplagi af seðlum og því var um alvarlegt vandamál að ræða enda auðvelt að ímynda sér viðbrögð fólks ef því hefði verið synjað um peningaseðla.

Viðtal við Gylfa Magnússon, þá dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og formann stjórnar Samkeppniseftirlitsins, í hádegisfréttum RÚV þennan sama föstudag olli miklu uppnámi og varð að hluta þess valdandi að óttinn jókst og spennan magnaðist. Þar lýsti hann alla bankana fallna og að greiðsluþrot blasti við þeim. Þetta var í töluverðu ósamræmi við orð Gylfa frá því fyrr í vikunni þar sem hann einn fárra manna lofsöng yfirtökuna á Glitni. Sagði hana nánast beint eftir bókinni og það eina sem rétt væri að gera til að bjarga kerfinu. Nú var hann mættur í fjölmiðlana aftur, en í þetta skiptið til að dæma kerfið dautt.

Inn í sama fréttatíma hringdu bæði Geir Haarde og Davíð Oddsson í ofboði til þess að andmæla Gylfa og koma í veg fyrir að fréttin kallaði fram áhlaup á bankana heima og heiman. Slíkt stenst enginn banki í heiminum, sama hver bakhjarlinn er. Þeir lögðu allan sinn sannfæringarkraft í það að segja hlustendum og um leið umheiminum öllum, að ekki væri öll von úti enn og að fólk skyldi halda ró sinni. Ekki æða út í banka og tæma þá.

Í ráðuneytinu fylgdumst við með framvindu dagsins í spennuþrunginni forundran. Töldum mínúturnar til lokunar bankanna og horfðum á biðraðir myndast við stærstu útibú þeirra. Það var ótrúleg sjón og óraunverulegt að þetta skyldi vera að gerast á Íslandi.

Ég fann á starfsfólkinu í ráðuneytinu að margt af því var orðið hrætt. Öldruð móðir mín á nokkrar milljónir á bók í einum bankanna, sagði einn starfsmanna ráðuneytisins við mig þennan dag. Á ég ekki að fara og taka það út til vonar og vara? Ef hún tapar því á hún ekkert eftir.

Nei, ekki gera það, sagði ég. Það er ekkert að óttast. Ríkið ver innistæðurnar hvað sem gerist með bankana, sagði ég við hann. Svona var spennustigið orðið hátt og ótti fólks mikill eftir þessa ömurlegu viku.

Af einum manni frétti ég sem tók allt sitt sparifé út úr bankanum, meira en fimm milljónir króna, og geymdi það í skjalatösku sem hann hafði með sér hvert sem hann fór í nokkra daga.

 

Helgin 4.-5. október var öll var einn samfelldur rússíbani fundahalda með stjórnendum bankanna um það hvort og hvernig væri mögulegt að bjarga kerfinu fyrir opnun markaða á mánudeginum. Allt var skoðað. Sameining banka, með eða án þátttöku ríkisins.

Þegar yfir lauk voru hugmyndir bankanna annars vegar fjarstæðukenndar út af því hversu mikið fé ríkissjóður átti að leggja fram, en á hinn bóginn gátu þeir ekki með neinu móti komið sér saman um hugsanlega skiptahluti sín á milli í sameinuðum bönkum. Vantraustið var greinilega mikið millum forystumanna bankanna enda urðu málalokin þau að frekar féllu þeir allir en að ná saman um vitlega tillögu, sem mögulega hefði getað afstýrt hruni þeirra allra.

Eftir fund okkar ráðherranna snemma á laugardeginum var þeim Friðrik Má Baldurssyni, Jóni Steinssyni, Tryggvi Þór Herbertssyni og Jóni Þór Sturlusyni falið að greina stöðuna og skilgreina allar færar leiðir til að afstýra þeim voða sem kerfið stefndi í. Þeir komu sér fyrir í Fjármálaeftirlitinu og unnu náið
með starfsfólkinu þar.

Á sunnudagsmorguninn kynntu þeir svo fyrir okkur nokkrar hugsanlegar leiðir til að bjarga einhverjum hluta bankakerfisins. Einn kosturinn var einmitt sá sem síðar varð niðurstaðan, að slá vörð utan um innlendu starfsemina og innlán hérlendis, en setja afgang eignanna í slitameðferð og söluferli. Á þeim tímapunkti hugnaðist mönnum ekki sú leið og fram eftir degi voru aðrar leiðir skoðaðar, svo sem sameining fjármálastofnana og sala tiltekinna flokka eigna.

Mikið var til þess vinnandi að bjarga því sem bjargað yrði. Til að mynda hefði björgun Kaupþings haft í för með sér að um helmingurinn af fjármálakerfinu hefði hangið uppi og tap ríkis, almennings og lífeyrissjóða orðið hunduðum milljörðum króna minna en ella.

Allt var reynt til þess að koma í veg fyrir að kerfið færi á hliðina þegar markaðir yrðu opnaðir á mánudeginum. Eitt mikilvægasta atriðið var að halda samskiptunum við bresk stjórnvöld í lagi. Létu þeir verða af hótunum um að loka starfsemi Landsbankans í Bretlandi, í stað þess að heimila flutning hennar og þar með talið Icesave í dótturfélag, þá var þetta búið spil. Breska fjármálaeftirlitið hafði í reynd staðið gegn því um mánaða skeið vegna óraunhæfra krafna um flutning á miklu eigin fé úr móðurfélagi bankans til dótturfélags í einu lagi. Því var eitt vandasamasta verkið að senda þeim formlegt bréf um viðhorf íslenskra stjórnvalda til þess máls.

Til að ljúka því verki komum við saman á sunnudagskvöldið þessa helgi á skrifstofu forsætisráðherra í ráðherrabústaðnum. Viðstaddir voru alvaran uppmáluð.

Við förum þá allir saman niður, sagði Össur við mig, Geir Haarde og Árna Mathiesen þar sem við stóðum yfir tölvunni og skrifuðum þrauthugsaðan texta, sem átti að sannfæra Bretana um að íslensk stjórnvöld ætluðu ekki að hlaupa frá skuldbindingum sínum.

Hins vegar mátti ekkert segja sem gerði stjórnvöld ábyrg fyrir himinháum upphæðum á innistæðureikningum Landsbankans. Því var ekki lýst yfir ábyrgð á Tryggingasjóðnum og skuldbindingum hans, en sagt að ríkið myndi styðja við sjóðinn í að afla fjár svo að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar, þótt ekki væri skilgreint hverjar þær væru.

Auk okkar tóku þátt í þessum skrifum Jón Sigurðsson stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og ráðuneytisstjórar fjármála- ,viðskipta- og forsætisráðuneyta.

Bréfið var svohljóðandi:

Dear Mr. Maxwell,

 

Reference is made to the discussions you have had with the Ministry this

weekend.

 

If needed the Icelandic Government will support the Depositors’ and

Investors´ Guarantee Fund in raising the necessary funds, so that the Fund

would be able to meet the minimum compensation limits in the event of a

failure of Landsbanki and its UK branch.“

Miklu skipti að bresk yfirvöld tækju ekki ákvörðun um að fella bankana einhliða og þar með efnahag landsins. Því var mikilvægt að halda þeim rólegum og það var tilgangurinn með bréfinu, en þau höfðu látlaust kallað eftir afstöðu stjórnvalda til ábyrgðar sjóðsins ef banki færi í þrot.

Um klukkan átta þetta kvöld hafði Geir átt mikilvægasta samtal helgarinnar þegar hann talaði við Gordon Brown forsætisráðherra Breta um stöðuna sem komin var upp. Brown nánast grátbað Geir að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og þiggja neyðaraðstoð. Án hennar yrði efnahag Íslands varla bjargað út úr öngstrætinu.

 

Um þessa eindregnu tillögu Browns vissum við hinir ráðherrarnir ekki fyrr en nokkuð löngu síðar, en þetta var sú leið sem Samfylkingin vildi fara um leið og ljóst var í hvílíkar ógöngur þjóðin var komin vegna bankanna og falls þeirra.

 

Síðar um haustið varð samstarfið við AGS að einu harkalegasta deiluefni okkar og Seðlabankans, þar sem Davíð Oddsson barðist með kjafti og klóm gegn aðstoð sjóðsins, eins og lýst hefur verið í öðrum bókum. Enda skyldi alþjóðasamfélagið ekki neitt upp á dekk „í mínum húsum“ – nema ef vera kynnu Rússar.

 

Snörpustu átökin sem komu upp í þessu nána samstarfi dag og nótt urðu á fundi í ráðherrabústaðnum undir miðnætti laugardaginn 4. október. Þá lagði forsætisráðherra það til við okkur að Davíð Oddsson seðlabankastjóri myndi veita formennsku þriggja manna framkvæmdanefnd vegna fjármálahamfaranna. Auk þess yrði í hópnum einn frá fjármálaráðuneytinu og einn fulltrúi frá FME. Enginn frá viðskiptaráðuneyti og Davíð yrði formaður. Þetta var tillaga Geirs.

Össur hafnaði þessari hugmynd fortakslaust. Davíð myndi aldrei fara fyrir slíkri nefnd í okkar umboði, sagði hann. Geir var mjög brugðið enda þung skref fyrir hann að tilkynna seðlabankastjóranum um þessar viðtökur við tillögunni. Eftir nokkurt þrátefli fram og til baka kom Geir með þá tillögu að þetta yrði ráðherranefnd. Skipuð honum, Árna, mér og Össuri. Það varð niðurstaðan.

Seðlabankastjórarnir yfirgáfu þá ráðherrabústaðinn og sátu ekki fund með okkur um nokkra hríð og aldrei aftur allir þrír. Þarna hrikti enn í stoðum stjórnarinnar svo um munaði og rétt hægt að ímynda sér hvernig samstarfinu yndi fram á næstu vikum í þeim manngerðu hamförum sem nú skóku efnahag landsins.

 

SJÖTTI KAFLI „Þetta er búið“