SEXTÁNDI KAFLI Skemmtilegt skítadjobb

SEXTÁNDI KAFLI

Skemmtilegt skítadjobb

 

Kosningarnar í apríl 2009 voru fyrirsjáanlegar, en um leið sögulegar. Með þeim skapaðist sögulegt tækifæri flokkanna tveggja vinstra megin við miðju, sem nú fengu í fyrsta sinn í lýðveldissögunni meirihluta þingmanna samanlagt. Frækinn sigur A-flokkanna frá 1978 var endurtekinn og gott betur.

Nú fengu flokkanir um 52% atkvæða og meirihlutastjórn þeirra var staðreynd – ekki þurfti lengur þriðja flokkinn til. En andrúmsloftið í samfélaginu dró þegar úr væntingum fólks.

Gríðarstór verkefni framundan voru óteljandi og auðvelt að draga fram álitamál sem sundruðu stjórnarliðinu. Sérstaklega þar sem margt af því fólki sem nú fyllti raðir stjórnarliða var vant hlutverki gagnýnandans og varla tilbúið til ábyrgðar og umdeildra ákvarðana.

Heimanmundurinn var bágborinn. Efnahagskerfi þjóðarinnar hart leikið og ríkissjóður í kröggum. Framundan voru krefjandi verkefni, svo mildilega sé að orði komist: Endurreisn efnahags og trú landsmanna á getu og góðvilja stjórnmálastéttar, sem var rúin trausti.

Vorið skilaði vissulega vinstri stjórn, en brekkan var brött. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn ráku frá fyrsta augnabliki ósvífna stjórnarandstöðu af mikilli hörku.

Fljótlega fundu andstöðuflokkarnir á þingi veikleikann í stjórnarmeirihlutanum, hina brokkgengu sveit órólega hlutans í Vinstri grænum. Það var hópur sem stundum gerði stjórninni erfitt fyrir í viðkvæmustu verkunum, hvort heldur var lausn á Icesave-hneykslinu eða endurreisn bankanna.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon voru af stjórnarandstöðunni dregin upp sem dauflegir og sinnulitlir forystumenn sem létu sig félagshyggjuna litlu varða þegar á reyndi. Staðreyndin var auðvitað sú að þau reru lífróður nótt sem nýtan dag. Það var róður sem andstæðingar ríkisstjórnarinnar gátu auðveldlega gert tortryggilegan vegna vantraustsins í þjóðfélaginu og illindin innan Vinstri grænna hjálpuðu ekki til.

Samfylkingin setti aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem skilyrði fyrir stjórnarþátttöku og um það var nánast einhugur í þingflokknum. Við höfðum skýra sýn á efnahagslega endurreisn, fyrirkomulag peningamála til framtíðar og stöðu landsins í samfélagi þjóðanna. Hvort tveggja var inntakið í áætlun okkar um efnahagslega uppbyggingu og til að fyrirbyggja að annað eins áfall gæti nokkurn tímann aftur dunið yfir þjóðina.

Umsókn um aðild að ESB var kjarni okkar pólitísku stefnumörkunar og hefðum við selt það mál eins og við gerðum tveimur árum fyrr hefði flokkurinn verið rúinn trausti hjá stórum hópi landsmanna. Salan á því stóra máli varð til þess að við sátum við landsstjórn þegar efnahagslegir innviðir samfélagsins hrundu. Nú fengum við annað tækifæri. Því mátti ekki glutra niður.

Í kjölfar efnahagshrunsins er mikið talað um vanrækslu og gáleysi stjórnmálamanna. Hins vegar blasir við að stærsta vanrækslusyndin var að láta hjá líða að taka á því sem felldi efnahag landsins, kerfisbrestinum á milli gjaldmiðils og efnahags banka og viðskiptalífs.

Þessa vanrækslusynd ætlaði Samfylkingin ekki að láta endurtaka sig eftir kosningarnar í apríl 2009 og lagði því aðild að ríkisstjórninni undir gagnvart því að sótt yrði um aðild að ESB með tengingu við evru sem markmið.

Steingrímur J. tók talsverða áhættu gagnvart flokksmönnum sínum þegar hann sættist á að sótt yrði um aðild, fengist meirihluti til þess í þinginu. Hann skuldbatt sitt fólk ekki til annars en að hleypa þingsályktun þess efnis í atkvæðagreiðslu, en sat samt undir harkalegri gagnrýni andstæðinga aðildar innan og utan VG. Hann var sakaður um svikráð og blekkingar fyrir vikið, en hann gerði það sem ábyrgt var og rétt í stöðunni.

Þingkosningarnar sjálfar voru í alla staði sérstakar. Víða voru þeir, sem setið höfðu á þingi og í ríkisstjórn í aðdraganda áfallanna, í vondri stöðu og margir féllu í prófkjörum. Ekki hvarflaði annað að mér en að halda áfram.

Ég taldi mig njóta almenns og góðs stuðnings í kjördæminu. Það fann ég alls staðar þar sem ég kom þótt svartholið í Sjálfstæðisflokknum í kjördæminu reyndi sífellt að gera mig tortryggilegan með rógburði og andstyggilegheitum. Bæði í nafnlausum netskrifum og í gegnum ungliðadeildirnar. Það beit ekki mikið á mig þegar þarna var komið enda var skrápurinn þá orðinn þykkur.

Samfylkingin hélt opið prófkjör í byrjun febrúar 2009 þar sem kosið var rafrænt. Þar fékk ég helming atkvæða í 1. sæti og náðum við þeim árangri í sjálfum kosningunum að verða stærsti flokkurinn í kjördæminu. Það þótti mér vænt um og upplifði það sem stóra stund á viðburðaríkum stjórnmálaferli. Mér þótti það líka mikill persónulegur sigur að geta leitt flokkinn í kjördæminu til þessa árangurs svo skömmu eftir þennan fimbulvetur.

Veturinn hafði á stundum gengið mjög nærri mér persónulega. Ég bókstaflega harkaði mig í gegnum kosningabaráttuna og prófkjörið í þeim einbeitta ásetningi að gera mitt besta til þess að skila framboðinu farsællega í höfn sem oddviti.

Staðfast markmið mitt var að Samfylkingin yrði ekki bara stærsti flokkurinn á landinu heldur líka í Suðurkjördæmi, en ég átti allt eins von á því að bankahrunið og vera mín í viðskiptaráðuneytinu gegnum það yrði mér og flokknum að fótakefli.

Úrslit kosninganna komu mér á óvart þegar upp var staðið. Ég gleymi því aldrei þegar við oddvitar framboðanna hittumst í Fjölbrautaskóla Suðurlands til að hlýða á fyrstu tölur. Atli Gíslason geislaði af sigurvissu. Sannfærður um að hann tæki einn, ef ekki tvo, með sér inn á þing og í bráðlæti sínu faðmaði hann Arndísi Soffíu Sigurðardóttur frambjóðanda flokksins í öðru sæti í beinni útsendingu og kynnti sem nýjan þingmann VG í kjördæminu. Niðurstaðan varð önnur. VG bætti litlu við sig. Áfram var Atli eini þingmaður þeirra í kjördæminu.

 

Samfylkingin hafði aftur á móti endurheimt stöðuna frá 2003 þegar klofningsframboð Kristjáns Pálssonar hafði haft af Sjálfstæðisflokknum mann og Samfylkingin náði því á 120 atkvæðum að verða stærsti flokkur kjördæmisins. Nú endurtókum við leikinn.

 

Oft reyndi á þolrifin í baráttunni. Sérstaklega var ljótur sá illgirnisáróður sem enn gekk um mig á vefnum á þessum tíma. Það voru grófar lygar um persónuleg fjármál mín og meintar niðurfellingar skulda sem var haldið fram í sífellu, en enginn fótur var fyrir. Þeim hafði verið komið á flot fljótlega eftir hrun. Svo rammt kvað að róginum að dyggustu stuðningsmenn mínir voru farnir að spyrja mig á fundum hvað væri rétt í málinu.

Á fundi í Reykjanesbæ með Samfylkingarfólki snemma í mars kom í ljós að þessi söguburður hafði greinilega haft töluverð áhrif. Ólafur Thordersen, harðsnúinn krati af gamla skólanum sem reynst hefur mér einkar vel, hvatti mig eindregið á fundinum til að taka í hornin á bola. Skrifaðu grein um bullið og berðu frá þér, sagði Óli.

Undir þetta tóku þeir miklu vinir mínir sem voru á fundinum, Eyjólfur Eysteinsson, Hannes Friðriksson, Eysteinn Eyjólfsson og Guðbrandur Einarsson, og lögðu þungt að mér að hreinsa andrúmið í kringum þessi mál. Þau væru að skaða framboðið. Ég væri skotmarkið og við því yrði að bregðast af fullum þunga.

Fólkið sem hvatti mig til dáða á fundinum hafði margt stutt mig dyggilega frá því að ég kom ungur frambjóðandi þangað suður eftir í prófkjöri Samfylkingarinnar haustið 2002.

Eftir þennan fund komst ég að þeirri niðurstöðu að nóg væri komið. Ég yrði að svara róginum og stöðva hann.

Úr varð að ég skrifaði grein í miðopnu Morgunblaðsins 18. mars 2009 til þess að reka staðreyndir málsins ofan í kokið á slúðurberunum. Það hafði ótrúlega sterk áhrif og þessu linnti strax í kjölfarið.

Greinin heitir Saga úr stjórnmálum og í henni segir:

Í andrúmslofti líðandi vetrar hefur tortryggni átt greiðan aðgang að almenningi og margar sögur hafa komist á kreik um þátttakendur í opinberu lífi. Sumar voru settar af stað með kerfisbundnum hætti til þess að gera nafngreint fólk tortryggilegt.

 

Ein saga af slíkum rógburði. Um helgina hringdi í mig vandaður maður og sagði mér að kosningasmalar Sjálfstæðisflokksins hefðu sótt hann heim. Reynt að fá hann til að kjósa í prófkjöri hjá Flokknum en hann sagði nei, hann styddi Björgvin og Samfylkinguna og kysi ekki hjá öðrum.

 

Þetta þótti smölunum afleitt að heyra. Björgvin væri ekki hægt að kjósa þar sem hann hefði fengið afskrifaðar 100 milljónir í bankakerfinu! Eitt hundrað milljónir, takk fyrir.

 

Saga af sama meiði: Fyrir skömmu sat hjá Agli í Silfrinu Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður, þar sem var til umfjöllunar óeðlileg fyrirgreiðsla til stjórnmálamanna. Þar hafði hann í frammi aðdróttanir að mér, kvað bankamálaráðherrann fyrrverandi þurfa að gera grein fyrir viðskiptum sínum við Landsbankann „sem er náttúrulega altalað svona meðal almúgans og á bloggheimunum.“ Ekki gerði þáttastjórnandinn athugasemd við að slíkur málflutningur væri hafður uppi.

 

Söguberum til hugfróunar vil ég segja þetta: Ég hef ekki fengið eina einustu krónu afskrifaða eða niðurfellda í nokkru fjármálafyrirtæki og aldrei óskað eftir því. Ég hef alla ævi skipti við einn og sama bankann, Landsbanka Íslands, og engan annan. Ég óskaði formlega eftir því á mánudaginn við Landsbankann að hann staðfesti að ég hafi aldrei fengið neinar afskriftir hjá bankanum, og aldrei farið fram á það. Bankinn staðfestir það við hvern þann sem eftir því leitar.

Við þetta má bæta að ég og sambýliskona mín eigum tvær húseignir sem eru heimili fjölskyldunnar; á Selfossi og í Skarði, Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Skuldum við tvö húsnæðislán vegna þeirra. Hjá Landsbankanum annars vegar og Íbúðalánasjóði hins vegar.

 

Og svona rétt til að það komi skýrt fram vegna sögusagnanna: Ég hef aldrei átt einkahlutafélag eða fjárfest í neinu í ágóðaskyni.

 

Því vísa ég rógnum til föðurhúsa. Vonandi ber okkur gæfa til að færa stjórnmálaumræðuna upp á hærra plan þannig að okkur auðnist að ræða um viðfangsefnin sem fyrir liggja í stað eltingaleiks við ærumeiðingar.

 

Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður.“

Annars gekk kosningabaráttan vel, framboðslistinn var vel mannaður og heppilega samansettur. Oddný G. Harðardóttir sveitarstjóri úr Garðinum kom ný til liðs við okkur í annað sætið og styrkti framboðið enda vönduð og góð manneskja. Ég hafði lagt mjög að Oddnýju að gefa kost á sér þar sem bráðvantaði upp á breidd listans að fá öfluga manneskju af Suðurnesjunum til þess að spegla vel kjördæmið allt. Hún gerði það og gott betur, var vel látinn frambjóðandi og strax í framhaldinu þingmaður sem nýtur álits langt út fyrir flokksraðir.

Róbert Marshall félagi minn og góðvinur til áratuga var í 3. sætinu, sem hentaði honum vel enda mikill baráttujaxl. Hann hafði staðið þétt við bakið á mér í gegnum alla lotuna og unnum við mjög vel saman í gegnum framboðið. Hann var óþreytandi við að telja í mig þrek og baráttuvilja sem skipti sköpum þar sem umhverfið var jafnviðkvæmt og eitrað og reyndin var.

Það var því sú óvænta staða uppi, að eftir þennan erfiða frostavetur var andinn í framboði Samfylkingarinnar sérstaklega góður. Öll samskipti spennu- og átakalaus og árangurinn í samræmi við það.

Í aðdraganda kosninganna leiddi ég aldrei hugann að því hvað tæki við að þeim loknum. Almennt gera prókjörin út um ráðherraröðina í flokkunum. Efstu menn í þeim kjördæmum, þar sem gengið var best, koma fyrstir. Til þess eru prófkjörin og valferlin, að velja flokknum leiðtoga um land allt. Síðan þættast að sjálfsögðu inn í það kynja- og byggðahlutföll til að ráðherrahópurinn nái yfir flest það í samfélaginu sem slíkur hópur þarf og getur með góðu móti gert.

Þrátt fyrir hefðina og hafandi náð þeim árangri að verða fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, sem þýddi nánast sjálfkrafa ráðherrasæti færi flokkurinn í stjórn, ákvað ég að gefa ekki kost á mér til þess að verða ráðherra. Ég afréð að senda formanni flokksins bréf þar sem ég sagði mig frá slíku á meðan rannsóknarnefnd þingsins væri enn að störfum og ásakanir um ráðherraábyrgð væru ekki til lykta leiddar með afgerandi hætti.

Ég sendi Jóhönnu bréf þann 5. maí 2009 þar sem ég baðst undan ráðherradómi á meðan rannsóknarnefndin hefði ekki skilað niðurstöðu sinni. Þar sagði m.a.:

Þeirri niðurstöðu kvíði ég ekki enda eftir látlausa umhugsun um þessi mál hef ég ekki enn séð hvað ég hefði getað gert sem ráðherra á þeim stutta tíma til að takmarka tjónið frekar. En ég lenti í storminum og það tekur tíma að jafna sig.

 

Vildi láta þig vita formlega af því með bréfi þessu. Gef hins vegar auðvitað kost á mér til annarra verka og vildi gjarnan koma til greina í forystu fyrir þingflokk og önnur sambærileg verkefni. Þarf auðvitað að halda hlut kjördæmisins að einhverju leyti. Bættum við okkur kjördæmakjörnum manni og erum afgerandi stærst landsbyggðarkjördæmanna. Vorum enda áður með bæði ráðherra og formann þingflokks.

 

Vona annars að þetta gangi vel. Þú stendur þig ákaflega vel í þessu mjög svo erfiða starfi og hlutverki.

 

kkv

Björgvin

Líklega mun sagan dæma árangur vinstri stjórnarinnar skár en samtíminn. Óþreyjan og vonskan yfir því hvernig fór hefur leyst úr læðingi andrúm sem gerir það að verkum að svo gott sem allt á vettvangi stjórnmálanna virkar tortryggnislegt og háð annarlegum tilgangi. Auðvelt er að magna upp moldviðri og að sama skapi er erfitt að fóta sig í því.

Ríkisstjórnarflokkarnir eiga gengi sitt undir því að samstarf flokkanna gangi vel og þeir skili afgerandi verki á sem flestum sviðum. Stór hluti af því er að stjórnin sitji út kjörtímabilið. Sundrist stjórnin vegna innbyrðis átaka á miðju kjörtímabili yrði það áfall fyrir þá sem hafa trúað á samstarf vinstri aflanna sem langtímamódel í stjórnmálunum.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur með höndum eitt erfiðasta hlutverk sem stjórnmálamaður getur tekið að sér. Þriggja áratuga ferill hennar í stjórnmálum er merkilegur og hefur líklega enginn stjórnmálamaður íslenskur náð viðlíka hylli og hún langt út fyrir raðir flokks síns. Hún ætlaði sér ekki að taka við formennsku í flokknum þegar Ingibjörg Sólrún hætti í febrúar 2009, heldur aftók það með öllu allt fram á síðasta dag.

Við Össur Skarphéðinsson og Óskar Guðmundsson sagnfræðingur eigum stóran þátt í því að þrýsta henni til þess að taka hlutverkið að sér. Við settum af stað leiftursöfnun á bænarskjali flokksmanna til hennar. Það var ákall um að gefa kost á sér í embætti formanns Samfylkingarinnar. Ég hringdi hringinn í kringum landið og rifjaði upp öll gömlu og góðu tengslin við flokksmenn frá því að ég hafði verið framkvæmdastjóri flokksins 1999-2002. Það gekk eins og í sögu. Össur afhenti henni listann, en við birtum hann aldrei opinberlega.

Þess þurfti heldur ekki. Sá breiði stuðningur sem þar kom fram við Jóhönnu í formannsembættið var nægur til þess að ýta henni yfir línuna. Hún gaf kost á sér, sem var mikil fórn af hennar hálfu enda eru aðstæður þannig nú að starf hennar er allt að því sjúklega vanþakklátt. En um leið varð hún fyrsta konan til þess að gegna embætti forsætisráðherra sem undirstrikaði enn frekar þáttaskilin sem urðu með tilkomu fyrstu félagshyggjustjórnarinnar í landinu. Jóhanna hefur staðið sig vel sem formaður og forsætisráðherra við erfiðar aðstæður.

Á fyrstu fundum okkar með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var gert ráð fyrir að atvinnuleysi yrði allt að þriðjungi hærra og verðbólga umtalsvert meiri en raunin hefur orðið. Þá var talið að niðurskurður í útgjöldum hins opinbera þyrfti að vera mun harkalegri vegna þess að útlit var fyrir að tekjur ríkis og sveitarfélaga minnkuðu mun meira en reyndin varð.

Margt hefur farið úrskeiðis í endurreisninni og langt er í land. Sérstaklega í málefnum skuldugra einstaklinga og í atvinnumálum. Sátt næst ekki í samfélaginu fyrr en fólkið sem ber gríðarlega höfuðstólshækkun á lánum sínum vegna verðbólguskotsins og gengishruns fær það lagfært með einhverjum hætti. Það er leiðin til sátta.

Aðallega hefur þó misfarist sálræn og siðferðileg úrvinnsla þjóðar sem fékk taugaáfall þegar góðærisblekkingunum lauk og slokknaði á því villuljósi að við byggjum við besta mögulega fyrirkomulag efnahagsmála.

Það er skrítið hvernig maður fer stig af stigi í gegnum áfalla- og átakaferli eins og veturinn 2008-2009 var. Það er afneitun, reiði, vonbrigði og á köflum mjög dimmir dalir. Líkast til einhvers konar sorgarferli þar sem erfitt er að átta sig á öllum tilfinningum og koma sæmilega heill út.

Auðvitað hugleiddi ég innra með mér fyrir þessar kosningar hvort ég ætti ekki bara að hætta. Hvers vegna ætti ég að láta bjóða mér – og þó ekki síður fjölskyldunni, Maríu og börnunum – þetta eilífa níð, rógburð og ósannindi, flest framið í skjóli nafnleyndar? Var það þess virði fyrir okkur?

Svo var pólitíska hliðin: Yrði ég ekki alltaf gerður tortryggilegur og yrði fyrir hörðu aðkasti vegna ríkisstjórnarþátttöku minnar í aðdraganda hrunsins?

En svarið var nei. Ég vissi ekki upp á mig neina sök sem kallaði á að ég hætti. Ég hafði lagt mig allan fram við erfiðustu hugsanlegu aðstæður þótt margt hefði ég auðvitað mátt gera betur. Ég hafði sagt af mér ráðherraembætti – að vísu alltof seint, en af réttum ástæðum – og hafði hreina samvisku.

Ég ætlaði ekki að láta hrekja mig úr starfinu sem ég hafði gefið mig allan í síðasta áratuginn. Þess utan var mannorðið í hættu og ekkert er mikilvægara en það.

Skítadjobb var þetta kannski, en mér þótti þingmennskan og pólitíska atið allavega ennþá skemmtilegt skítadjobb, þrátt fyrir andstreymið og áföllin sem yfir höfðu gengið. Það var ekki í boði að bogna eða hrekjast undan verkefninu. Nú var að standa sig og berjast enn frekar fyrir góðum verkum og mannorði sjálfs sín.

 

SAUTJÁNDI KAFLI „Ganga með sjó – sitja við eld“