TÍUNDI KAFLI „Nú geng ég héðan út“

TÍUNDI KAFLI

„Nú geng ég héðan út“

 

„Eina leiðin að sækja um ESB aðild“ var yfirskrift fréttar í Morgunblaðinu hinn 19. febrúar 2008. Fjallað var um umræður um efnahagsmál á Alþingi, þar sem ég var berorður um nauðsyn þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að verja okkur gegn of stóru fjármálakerfi. Í fréttinni segir:

„Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði á Alþingi að sjálfsagt væri að hefja umræðu um hvernig gjaldeyrismálum yrði háttað og leiða hana til lykta á næstu misserum. Sagði Björgvin að eina leiðin sem hann teldi færa í framtíðinni væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu og myntbandalagi Evrópu. Björgvin var að svara fyrirspurn frá flokksbróður sínum, Karli V. Matthíassyni…

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði, að tvennt valdi íslenskum fjármálafyrirtækjum einkum erfiðleikum nú. Annað væri alþjóðleg fjármálakreppa, sem hefði áhrif á íslensku fyrirtækin eins og þau erlendu. Hitt væri svokallaður hlutfallsvandi; fjármálafyrirtækin væru orðin hlutfallslega of stór fyrir gjaldmiðilinn og hagkerfið.

„Eitt stærsta verkefni stjórnmálanna á næstu misserum og árum er að leiða þetta til lykta… Eina leiðin sem mér finnst vera fær í framtíðinni er að að sækja um aðild að ESB…“

Þarna sagði ég það, sem ekki mátti segja. Kerfisbresturinn, skekkjan á milli stærðar bankanna og hagkerfisins, var slíkur að til framtíðar kallaði það á jafnróttæka lausn og umsókn um aðild að ESB og upptöku evrunnar. Þetta var afar viðkvæmt. Í hvert sinn sem þessi beiski sannleikur skall á hljóðhimnum manna fóru flestir að iða.

Þetta var skoðun sem fáir héldu fram á þessum tíma, fyrir utan nokkra þingmenn Samfylkingarinnar. Ég var mjög harður á sterkari tengslum við ESB og lét það óspart uppi. Það fór í taugarnar á mörgum. Stjórnarandstaðan tók ummæli mín oftsinnis upp á Alþingi og sakaði mig um að tala niður krónuna. Það var hennar leið til að kveða niður umræðuna. Enginn mátti efast um blessaða krónuna.

Þetta pirraði líka forystumenn í Sjálfstæðisflokknum og jafnvel mínum eigin. Úr báðum fékk ég sterkar ábendingar um að málflutningur af þessu tagi félli í grýttan jarðveg. Mönnum þótti ég vera að storka stjórnarsamstarfinu. Það var ekki vel séð að ungur maður sem var nýkominn í ríkisstjórn hefði sjálfstæðar skoðanir á máli sem hafði verið lagt til tímabundinnar hvílu með stjórnarmynduninni vorið 2007.

Stjórnmálin voru ekki tilbúin til þess að taka af skarið og sækja um aðild að ESB til þess að komast í skjól Seðlabanka Evrópu. Það hefði vitanlega þurft að gerast löngu fyrr hefðu menn ætlað að skapa sterkar varnir fyrir ófyrirséðum fjármálaáföllum.

Afstaða mín og endurteknar yfirlýsingar um Evrópusambandið ollu gremju hjá fleirum en þeim sem áttu fast sæti við Austurvöll. Margir urðu til þess að greina mér frá vanþóknun seðlabankastjórans, sem greinilega sagði hverjum sem heyra vildi að hann væri yfir sig hneykslaður á stöðugu Evróputalinu.

Sú hneykslan braust út með eftirminnilegum hætti. Á eina formlega fundi mínum með seðlabankastjórunum þremur lenti okkur Davíð hressilega saman vegna Evrópumálanna. Fundurinn var haldinn í Seðlabankanum í nóvember 2007.

Jónína S. Lárusdóttir ráðuneytisstjóri hafði sagt mér um sumarið að áratugahefð væri fyrir því að viðskiptaráðherra og Seðlabankastjórar ættu fund um stöðu mála ár hvert og um haustið hringdi Ingimundur Friðriksson í Jón Þór til að koma fundinum á. Þessi hefð hafði haldist þrátt fyrir að málefni Seðlabankans hefðu verið flutt frá viðskiptaráðuneytinu áratug áður til forsætisráðuneytisins. Hún lagði eðlilega til að við héldum þessari hefð. Ég tók því með opnum huga og taldi þarft að við færum yfir stöðuna með bankastjórunum þremur. Samráðið innan stjórnsýslunnar var ekki svo mikið að það litla sem fast væri í hendi mætti missa sín.

Einn þáttur í því ósamræmi, sem kom fram í stjórnsýslunni í aðdraganda bankafallsins, var sú illa grundaða ráðstöfun að skipta málefnum fjármálamarkaða upp á milli margra ráðuneyta og stofnana í stað þess að hafa þennan viðkvæma og mikilvæga málaflokk undir einni stjórn. Undir einum ráðherra og einni stjórn með góða yfirsýn og nægar valdheimildir til þess að bregðast við.

Í staðinn hafði málefnum banka og eftirlitsstofnana verið skipt á milli forsætis-, fjármála-, og viðskiptaráðuneyta. Forysta fyrir stjórn efnahagsmála var á hendi forsætisráðherra. Það gilti um verkstjórnarvald yfir málaflokknum í heild, en jafnframt heyrði Seðlabankinn undir hann. Þegar á hólminn kom reyndist þetta fyrirkomulag ekki vel. Við þær afleitu aðstæður sem sköpuðust í stjórnsýslunni árin fyrir hrun skapaði það samráðsleysi og þokukennda sýn yfir stöðu mála og þróun. En mér var þetta ekki ljóst þegar ég tók við embætti árið 2007.

Ég bar engan kala til Davíðs Oddssonar þegar ég kom í viðskiptaráðuneytið. Ég gerði mér grein fyrir því að hann var andsnúinn samstarfi síns gamla flokks við Samfylkinguna, og vissi auðvitað eins og þjóðin öll um andstöðu hans við Evrópusambandið. Ég bar samt virðingu fyrir honum sem gömlum pólitískum foringja. Þegar ég kom í ráðuneytið taldi ég engin vandkvæði á því að koma á góðu samstarfi milli þess og bankans. Ég var því meira en jákvæður fyrir því að fara til fundarins við Davíð í nóvember.

Að ýmsu leyti var ekki jafnlangt á milli skoðana okkar á mikilvægum atriðum. Davíð var til dæmis einn fárra sem gerði sér grein fyrir hlutfallsvandanum, sem ég eygði líka sem skugga yfir fjármálakerfinu og gerði oft að umtalsefni. Davíð vildi hins vegar leysa hlutfallsvandann öðruvísi. Það kom best fram ári síðar, þegar hann vildi koma bönkunum burt, a.m.k. þeim stærsta, Kaupþingi. Það var í sjálfu sér sjónarmið. Mér fannst það þó ekki ríma við andstöðu hans við ýmislegt sem bankarnir vildu gera til að auðvelda sér stöðuna, s.s. að meina Kaupþingi að gera upp í evrum, sem bankinn sótti fast.

Fundur okkar var vægast sagt skrautlegur. Að sama skapi var hann erfiður fyrir þá sem voru viðstaddir. Millum okkar Davíðs spannst harkalegt rifrildi, eins og glöggt má sjá af lýsingu Eiríks Guðnasonar seðlabankastjóra á fundinum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar segir:

Hann var erfiður, hann var stormasamur. Þeir fóru í pólitíska umræðu, viðskiptaráðherra og formaður bankastjórnar, um upptöku evru eða inngöngu í Evrópusambandið, þannig að það var erfitt að sitja þann fund.“

Davíð tók hressilega á móti okkur þremur, mér, Jónínu ráðuneytisstjóra og Jóni Þór Sturlusyni. Brosið fór þó fljótlega af honum. Hann dembdi því yfir mig, að væri hann í sporum Geirs Haarde sem forsætisráðherra myndi hann aldrei líða hve opið og frjálst við töluðum um ágreiningsmál á milli flokkanna. Taldi hann Evrópumálin þar sérstaklega til og hvorki gat né reyndi að leyna hneykslan sinni á málflutningi mínum um mikilvægi þess að taka upp sterkan og stöðugan gjaldmiðil í stað krónunnar.

Síðan upphóf hann reiðilestur um þá fráleitu og afspyrnuvondu hugmynd að Ísland gæti með nokkru móti átt heima í Evrópusambandinu. Hann messaði látlaust yfir okkur um hríð. Ég sat svipbrigðalítill undir lestrinum, en í gegnum huga mér fór: Ef hann lendir þessu rugli ekki fljótlega með einhverju viti þá geng ég héðan orðalaust út.

Undir lok þessa lesturs var ég búinn að ákveða að ganga út af fundinum. Ég þurfti ekki annað en að líta á svipbrigði sessunauta Davíðs, Ingimundar Friðrikssonar og Eiríks Guðnasonar, til þess að sannfærast um það.

Þegar ég komst loks að til að svara var orðið býsna þungt í mér. Ég svaraði honum fullum hálsi. Við þessi viðbrögð kom á hann og ég sá að honum varð nokkuð um. Enda líklega ekki vanur að þeir sem sætu undir aðfinnslum hans svöruðu í sömu mynt.

Hvernig í ósköpunum á Ísland að komast af í framtíðinni með litla fljótandi mynt sem hvaða ábyrgðarlaus vogunarsjóður sem er getur kolfellt hvenær sem er og þar með risastórt alþjóðlegt bankakerfi? Hvernig ætlum við að verja kerfið ef það lendir í krísu? Þannig vatt „samtalinu“ fram með töluverðum eldglæringum og hækkandi raddstyrk okkar beggja. Aðrir lögðu ekki orð í belg á meðan þessari liðlega hálftíma löngu sennu stóð.

Eftir á sögðu starfsmenn mínir að við hefðum nánast hrópað hvor á annan. Svo var eins og bráði af Davíð og hann fann leið til að lenda hávaðanum og binda endi á rifrildið. Eftir það tók við hefðbundin yfirferð bankastjóranna þriggja um stöðu bankans og bankakerfisins. Síðan lauk fundinum í þokkalegum friði.

Viðskiptaráðherra og Seðlabankinn hittust ekki aftur fyrr en bankarnir fóru niður. Davíð Oddsson hitti ég ekki á nýjan leik fyrr en tíu mánuðum síðar á ríkisstjórnarfundinum fræga þar sem hann lagði til ríkisstjórnin segði af sér.

Fimmtudaginn 4. desember 2008 spurði Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, mig á Alþingi út í samskipti okkar Davíðs. Hann innti mig sérstaklega eftir hvort það væri virkilega rétt að við hefðum einungis hist einu sinni á þessum tíma. Það er fróðlegt eftir á að lesa frétt Morgunblaðsins um orðaskipti okkar í þinginu. Yfirskrift hennar var: Hitti Davíð ekki í heilt ár.

Í frétt Höllu Gunnarsdóttur segir: „Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Davíð Oddsson seðlabankastjóri hittust ekki í tæpt ár eða frá því í nóvember 2007 og þar til á ríkisstjórnarfundi í september sl. Þetta kom fram í svari Björgvins við fyrirspurn Birkis J. Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokks, á Alþingi í gær. Birkir vildi vita hvort Björgvin hefði verið á fundi í júní sl. þar sem Davíð á að hafa fullyrt að 0% líkur væru á að bankarnir gætu lifað aðsteðjandi erfiðleika af.

„Hvað fór fram á einhverjum óskilgreindum fundum með seðlabankastjóra og einhverjum ráðherrum hef ég ekki hugmynd um,“ sagði Björgvin og benti á að í formlegum gögnum Seðlabankans (skýrslu bankans í maí um fjármálalegan stöðugleika) hefði verið skýrt að staða íslensku bankanna væri almennt góð.“

Davíð hefur verið gagnrýndur af mörgum fyrir tíma sinn í embætti seðlabankastjóra. Í Seðlabankann átti hann aldrei að fara. Embættið er alltof viðkvæmt fyrir pólitísku ati og varð sjálfkrafa hluti þess með komu hans í bankann. Hann var fyrst og fremst stjórnmálamaður og þeim ham gat hvorki hann né umhverfið kastað burt.

Samfélagið, sem var byggt upp á valdatíma Alþýðuflokks, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks árin 1991-2007, féll saman eins og spilaborg. Ástæðan var m.a. sú blekking sem haldið var að þjóðinni, að með EES-samningnum væri okkur borgið í samfélagi þjóðanna. Það væri besta fyrirkomulag sem hugsast gæti; aðgangur að mörkuðum og fjórfrelsi en formlega séð utan bandalagsins sjálfs. Nægilegur varnarviðbúnaður fælist í því að innleiða möglunarlaust allar tilskipanir sem samningurinn kvað á um. Þeir sem þessu héldu fram horfðu framhjá því að EES-samningurinn gaf okkur ekki möguleika á því að nýta einn mikilvægasta þátt Evrópusamstarfsins – stöðugleika í gjaldeyrismálum.

Davíð Oddsson gat ekki hugsað sér að leyfa sínum væng stjórnmálanna að skoða aðild fordómalaust. Þar hvílir hugsanlega mesta ábyrgðin á hans herðum. Það þurfti því engum að koma á óvart sú hatramma pólitík sem hann rak úr Seðlabankanum gegn öllu sem tengdist evrunni og Evrópusambandinu.

Þótt Samfylkingin áskildi sér rétt til þess að fjalla um Evrópu- og gjaldmiðilsmál í sérstakri Evrópunefnd fól stjórnarmyndunin vorið 2007 í raun í sér samning um óbreytt ástand. Það gekk þvert á viðvaranir flokksins og afdráttarlausan málflutning í aðdraganda kosninganna um mikilvægi þess að ná aftur jafnvægi með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hafa stuðning af evrunni.

Gegn þessu réðust þau öfl, sem í þremur flokkum stóðu gegn nánari tengslum við Evrópu, með hörðum ásökunum um að fólk sem talaði eins og ég væri að tala niður krónuna.

Sannleikann mátti ekki segja. Hann var pólitískt sprengiefni fyrir alla flokka nema Samfylkinguna.

 

ELLEFTI KAFLI Eldveggurinn í kringum FME