TUTTUGASTI KAFLI Allt betra en íhaldið?

TUTTUGASTI KAFLI

Allt betra en íhaldið?

 

Að mörgu leyti þótti mér það sérkennilegt hlutskipti að bíða sameiginlegt skipbrot með Sjálfstæðisflokknum. Saman stóðum við, sem stofnuðum Samfylkinguna sem valkost og valdaflokk til vinstri við Sjálfstæðisflokkinn, skyndilega haustið 2008 arm í arm við hann yfir rústum einkavædda kunningjaþjóðfélagsins.

Í aðdraganda kosninganna 2007 beitti ég mér mjög gegn samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn sem var ljóst að stefndi í, næði stjórnarandstaða Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Frjálslyndra ekki meirihluta. Ég vildi að Samfylkingin yrði frekar áfram í stjórnarandstöðu en að mynda slíka stjórn með höfuðandstæðingnum. Undir það tók til dæmis Árni Páll Árnason þingmannsefni á lista flokksins í Kraganum í ræðu á landsfundi fyrir kosningarnar.

Um þetta skrifaði ég umdeilda grein í Morgunblaðið skömmu fyrir kosningar. Hún olli miklum titringi í flokknum þar sem ljóst var að í þessa átt stefndi hugur flokksforystunnar ef stjórnarandstaðan næði ekki meirihluta á Alþingi.

Þessari skoðun lýsti ég einnig í samtölum við Ingibjörgu Sólrúnu formann Samfylkingarinnar skömmu fyrir kosningar. Ingibjörg hringdi í mig á fimmtudagskvöldið tveimur dögum fyrir kjördag. Ég var að aka inn í Þorlákshöfn þar sem Elín Björg Jónsdóttir, Sigurður Grétar Guðmundsson, Dagbjört Hannesdóttir, Sigþrúður Harðardóttir og félagar í Samfylkingunni þar í bæ boðuðu til samkomu með okkur Róberti Marshall.

Í símtalinu gaf formaðurinn mér það til kynna að líklega yrði reynt að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokki næði stjórnarandstaðan ekki markmiðum sínum. Hún vildi vita hvernig ég tæki því ef af yrði. Ég tjáði henni sem áður afdráttarlaust að því væri ég eindregið andsnúinn og teldi það afdrifaríkt fyrir framtíð flokksins í íslenskum stjórnmálum.

Um þetta vorum við ekki sammála. Hennar mat var að flokknum bæri að freista þess að mynda stjórn þótt með Sjálfstæðisflokki væri. Við það sat. Hún var formaður flokksins og meirihluti þingflokks og loks flokksstjórnarinnar réði þessu að lokum.

Ég hafði haft mætur á Ingibjörgu Sólrúnu og þótti hún ágætur borgarstjóri. Fyrir kosningarnar 1998 hafði ég unnið fyrir Reykjavíkurlistann þar sem ég sá um utankjörfundarmál. Inn í það starf datt ég um vorið þegar ég lauk vetri mínum sem ritstjóri Stúdentablaðsins. Ég starfaði hjá Stúdentaráði við ritstjórn blaðsins í ár eftir útskrift úr heimspeki og sögu í Háskóla Íslands.

Baráttu Reykjavíkurlistans stýrði Þórunn Sveinbjarnardóttir, nú formaður þingflokks Samfylkingarinnar og umhverfisráðherra í stjórn Geirs og Ingibjargar, og fórst það einkar vel úr hendi. Helgi Hjörvar var stjarna baráttunnar eftir sigur í prófkjöri R-listans fyrr um veturinn þar sem honum skaut upp á stjörnuhimin stjórnmálanna þegar hann náði efsta sæti listans.

Þetta var vel rekin barátta við erfiðar aðstæður þar sem Sjálfstæðisflokkurinn sótti hart að Hrannari B. Arnarssyni. Þar kynntist ég Ingibjörgu ekki að ráði en fannst hún flottur leiðtogi í baráttunni um að halda borginni.

Eftir að hún kom í landsmálin 2003 og sérstaklega í kjölfar formannskjörsins 2005 áttum við ekki mikil samskipti. Ég studdi Össur í formannskjörinu og var nánast talsmaður baráttu hans. Mér fannst það einhvern veginn aldrei jafna sig gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu. Það þótti mér miður, því við hefðum getað unnið miklu betur saman en við gerðum.

Nú blasti hins vegar við sá veruleiki að flokkurinn hafði tekið stefnuna á samstarf við Sjálfstæðisflokk þrátt fyrir að engar líkur væru á að saman næðist um ákvörðun um að sækja um aðild að ESB. Forystan náði þó strax fram skilyrðum sínum um myndarlegar umbætur í málefnum lífeyrisþega og öðrum velferðarmálum. Það féll vel í kramið hjá flokksmönnum, sem á þeim tíma voru ekki fúsir til að gera ESB að úrslitaatriði.

Rökin voru þau, að það væri ekkert annað stjórnarsamstarf, með eða án okkar, sem gæti náð árangri í þeim efnum. Okkur hefði altjent tekist að ná fram loforðum um Evrópunefnd og menn gerðu sér vonir um að með skynsemi og rökum mætti þróa starf hennar í átt að umsókn.

Formaðurinn hafði flokkinn með sér í þessu enda Samfylkingin foringjahollur flokkur. Á flokksstjórnarfundi á Hótel Sögu var ákafur fögnuður yfir samkomulaginu við höfuðandstæðinginn.

Við höfðum náð einu af markmiðunum sem fyrsti formaðurinn, Össur Skarphéðinsson, hafði lagt upp með á stofnfundinum í Borgarleikhúsinu vorið 2000, um að komast í ríkisstjórn. Hin markmiðin, sem Össur setti fram í frægri lokaræðu stofnfundarins, voru að taka við forsætisráðherraembættinu fyrir 2015 og að sótt yrði um aðild að ESB snemma á öðrum áratug aldarinnar. Þessi markmið náðust öll.

Ég var ráðinn framkvæmdastjóri þingflokksins í nóvember 1999 og flokksins frá stofnun hans í maí 2000. Össur var kosinn formaður á stofnfundinum og Margrét Frímannsdóttir varaformaður og einhenti hún sér í uppbyggingarstarfið ásamt formanni og framkvæmdastjórn.

Þetta var fólkið sem lagði grunninn að Samfylkingunni um allt land og það var ævintýri að vinna með þeim. Þetta var leiftrandi skemmtilegur tími. Við drifum með okkur kappsfullan hóp sem undir forystu þessa tvíeykis náði góðum árangri í hverjum kosningum sem við stýrðum. Við rifum flokkinn upp í 33 prósenta fylgi í sveitarstjórnarkosningunum 2002 og ári síðar rúm 30 prósent á landsvísu. Tveggja flokka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn var víðs fjarri hugsun okkar á þessum árum þegar flokkurinn var nýstofnaður.

Þegar Ingibjörg Sólrún varð formaður 2005 breyttist þessi taktur. Össur dró sig í hlé um stund meðan hann jafnaði sig á því að flokkurinn hafnaði honum eftir samfellda sigurgöngu, svo og sviplegan móðurmissi. En við studdum öll Ingibjörgu þegar úrslitin lágu fyrir.

Þegar kom að myndun ríkisstjórnar vorið 2007 valdi Ingibjörg Sólrún að leiða flokkinn í samstarf til hægri. Á sömu skoðun var varaformaðurinn, Ágúst Ólafur Ágústsson, og flestir hinna eldri þingmanna.

Össur, sem Ingibjörg hafði dregið úr híði sínu og fengið til að leiða með sér kosningabaráttuna, las stöðuna þannig að VG vildi taka strikið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hann taldi þetta eina stjórnarmynstrið sem völ var á í stöðunni fyrir okkur og hélt yfir mér fyrirlestra um bernska róttækni.

Ég var honum ósammála. Taldi engar líkur á því að VG vildi binda sitt trúss á Sjálfstæðisflokkinn. Tíminn sýndi að um þetta hafði ég á röngu að standa, en þau Ingibjörg og Össur réttu. Geir H. Haarde staðfesti það í Kastljósviðtali sama dag og Alþingi greiddi atkvæði um landsdóm. Þá sagði hann frá því að Steingrímur J. hefði reynt að fá hann til að koma í sumarbústað tengdaforeldra sinna, hinum megin við fjallið mitt í Skarði, til að mynda stjórn VG og íhaldsins. Lengi skal manninn reyna, hugsaði ég þá. En það hefði engu breytt hefði ég vitað þetta vorið 2007. Ég taldi vænlegra fyrir minn flokk að vera áfram í stjórnarandstöðu, auka fylgið og bíða eftir því að orð Jóhönnu rættust.

Helgi Hjörvar var eindreginn andstæðingur stjórnarsamstarfsins, og við Katrín Júlíusdóttir og Árni Páll Árnason lögðumst einnig mjög gegn því á fundi þingflokks daginn eftir kosningarnar í maí 2007.

Helgi gekk svo langt að bóka andstöðu sína á þingflokksfundinum sem haldinn var daginn eftir kosningar. Sú bókun finnst nú hvergi. Honum var síðar tjáð að formaður flokks og þingflokks hefðu ákveðið að bókun hans skyldi ekki skráð. Fyrir því voru færðar einhverjar óskiljanlegar ástæður.

Fyrir mig var þetta eins og endurhvarf 16 ár aftur í tímann þegar Alþýðuflokkurinn gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í Viðeyjarstjórninni árið 1991. Ég hafði heillast af mælskulist og sannfæringarkrafti Jóns Baldvins og gengið í flokkinn 1987, 16 ára gamall, og unnið með honum í kosningunum 1991. Árni Gunnarsson, jafnaðarmaður úr kratískum eðalmálmi, leiddi þá lista flokksins á Suðurlandi.

Alþýðuflokkurinn undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar hét því fyrir kosningar 1991, að héldi vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar velli sæti hún áfram. Hún hélt velli, en aðeins með eins manns meirihluta. Við unga fólkið töldum að það dygði til að halda vinstri stjórninni áfram. Á daginn kom að fyrir löngu var búið að semja við íhaldið bak við tjöldin um samstarf. Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti, sagði síðar að Jóni Baldvin hefði verið boðið embætti forsætisráðherra í vinsri stjórn. En samningarnir við íhaldið héldu. Forysta Alþýðuflokksins bar fyrir sig að EES-samningurinn hefði ekki náðst í gegnum vinstri stjórnina. Vel má það vera, en á þessum tíma voru þetta mikil vonbrigði.

Reynslan frá 1991 og sá ágæti árangur sem náðst hafði á mörgum vígstöðvum frá stofnun Samfylkingarinnar þýddi í mínum huga að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn gæti reynst flokknum dýrkeypt. Flokksstjórnin tók samstarfinu við íhaldið hins vegar tveimur höndum og fannst að nú væri Samfylkingin fullorðin.

Þrátt fyrir þetta varð samstarf mitt við ráðherra Sjálfstæðisflokksins ágætt. Mér fannst þeir allir prýðisfólk, sem í samstarfinu unnu frekar á en hitt. Samvinna við Sjálfstæðisflokkinn breikkaði með vissum hætti ásýnd og skírskotun Samfylkingarinnar og undirstrikaði að flokkurinn gat unnið með ólíkum flokkum með ábyrgum hætti.

Staðreyndin var hins vegar sú, að í reynd vorum við með stjórnarmynduninni að lengja og viðhalda gamla valdakerfinu í landinu þvert gegn grundvallarmarkmiði Samfylkingarinnar. Allt gerðist þetta síðan í skugga þess að stóra málinu – Evrópu – var skotið á frest.

Við gengum inn í fastmótað kerfi sjálfstæðis- og framsóknarmanna með litlum breytingum, en fengum í sárabætur óljós fyrirheit um meiri breytingar síðar. Evrópa var lögð á ís.

 

TUTTUGASTI OG FYRSTI KAFLI Stóra málið