TUTTUGASTI OG FYRSTI KAFLI Stóra málið

TUTTUGASTI OG FYRSTI KAFLI

Stóra málið

 

Ég er stoltur af því að Samfylkingin skuli hafa tekið það gæfuspor á fyrstu árum sínum að ræða Evrópumálin til hlítar og efna til almennrar kosningar í flokknum, sem leiddi til þess að hann varð einhuga í málinu. Þar var byggt á réttri greiningu á framtíðarhagsmunum þjóðarinnar.

Það er mikilvægt að Íslendingar standi saman um að ná fram sem bestum samningum við Evrópusambandið og að þjóðin verði ekki svipt því tækifæri að taka fullan þátt á helsta samstarfsvettvangi Evrópuríkja.

Mér finnst nauðsynlegt að rökstyðja þá skoðun mína að stærsta ákvörðun þjóðarinnar á næstu misserum sé hvort Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu og taka upp evru í stað krónu og EES-samnings.

Líkast til er það greiðasta leiðin til endurreisnar landsins og stóri lærdómurinn af hruni fjármálakerfisins. Til langs tíma litið er það eini raunhæfi kosturinn til að skapa á Íslandi efnahagslegan stöðugleika og sambærileg lífskjör við nágrannalöndin. Krónan er nú aftur í gjörgæslu gjaldeyrishafta og við þær aðstæður verður ekki búið til langframa.

Umræðan um þetta stærsta hagsmunamál þjóðarinnar er því miður á stigi fáránleikans á stundum. Þar er alið á ótta um innlimun í stórríki ESB, afsal auðlinda, fullveldis og sjálfstæðrar tilveru þjóðarinnar. Alið á því að Ísland yrði undir í leit bandalagsins ógurlega að auknu „lífsrými“ og því sé allt að óttast, jafnvel sé þjóðerni, tunga og samfélag í stórhættu.

Þetta er ekki bara fáránlegur málflutningur. Hann er einfaldlega ekki boðlegur þegar um svo stórt hagsmunamál er að tefla. Enda nærtækast að spyrja: Misstu Írar og Danir fullveldið við inngöngu landanna í ESB árið 1973? Eru þeir minni Írar og Danir nú en þá?

Auðvitað ekki og menning og sérkenni þessara tveggja þjóða nú eftir 37 ár í sambandinu eru á meðal helstu auðlinda þeirra beggja. Milljónir manna sækja þær árlega heim til þess að njóta menningar og mannlífs þar, sérkenna þeirra og þjóðareinkenna sem þvert á móti virðast – ef eitthvað er – hafa styrkst í því þjóðabandalagi nú 27 fullvalda ríkja sem ESB er.

Einungis fullvalda og sjálfstæð ríki geta sótt um aðild að bandalaginu, rétt eins og NATO og Sameinuðu þjóðunum. Ekki héruð eða þjóðabrot. Við þetta má bæta að almennt álit fólks í Skotlandi er að við aðild Bretlands að ESB hafi Skotar loks fengið viðurkenningu og stöðu til þess að varðveita menningu sína og séreinkenni gagnvart Englendingum.

Ein eftirminnilegasta stund mín á Alþingi var þegar við greiddum atkvæði um hvort sækja bæri um aðild að Evrópusambandinu í júlí 2009. Loftið var rafmagnað og spennan mikil í þingsalnum. Mikið hafði gengið á að tjaldabaki enda hafði Samfylkingin frá upphafi gert Vinstri grænum ljóst að aðildarumsókn lægi til grundvallar þátttöku okkar í ríkisstjórn.

Því fór þó fjarri að málið væri í höfn og ljóst að án stuðnings frá Framsókn og hugsanlega Sjálfstæðisflokki yrði ekki öruggur meirihluti fyrir umsókninni og þar með félli ríkisstjórnin aðeins tveimur mánuðum eftir kosningar. Þessu fylgdi sá kostur að ef til kæmi nyti málið stuðnings úr öllum flokkum og breikkaði því bakland umsóknarinnar, nema Borgarahreyfingunni reyndar sem skipti skyndilega um afstöðu í málinu öllum að óvörum.

Umræðan í þinginu um aðildarumsóknina var skemmtileg og þokkalega málefnaleg. Vegna þess að stuðningur við það náði inn í alla flokka hélt það aftur af orðhvatasta þingliðinu í landráða- og svikabrigslum. Þingið samþykkti umsókn og straumhvörf urðu í umræðunni um samskipti Íslands við Evrópusambandið.

Nú var lokið löngu tímabili þraskenndrar umræðu um hvort sækja bæri um aðild eða ekki og hvað í aðild myndi felast. Umsókn var staðreynd og loksins yrði hægt að taka afstöðu til raunverulegra álitaefna í samningi, en ekki karpa út í eitt um málið í viðtengingarhætti og skildagatíð.

Skynsemin hefur því miður, tímabundið að minnsta kosti, orðið undir í umræðunni, en þó brýtur hún sér ævinlega leið fram á ný. Steingrímur J. Sigfússon nálgaðist stöðuna gagnvart umsókninni að ESB vel í greinaflokki sínum Landið tekur að rísa í Fréttablaðinu sumarið 2010. Orð hans eru einkar athyglisverð í því ljósi að hann er yfirlýstur andstæðingur aðildar að Evrópusambandinu. Hann sér málið svona:

„Það var erfið ákvörðun að taka [að sækja um aðild að ESB] en rökin voru þau – fyrir utan stjórnmálalegar ástæður þ.e. málamiðlun milli samstarfsflokka í ríkisstjórn, – að fá botn í það hvað er í boði og fá einhverja niðurstöðu í áratuga langa umræðu um hvernig framtíðartengslum Íslands við Evrópusambandið skuli háttað.

Um leið skýrist hvert verður framtíðarumhverfið í gjaldmiðilsmálum okkar og við getum hagað efnahagsuppbyggingunni í samræmi við það. Fari svo að samningsniðurstaða náist sem þykir á borð leggjandi verður það þjóðin sjálf sem ræður úrslitum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er hin lýðræðislega nálgun í þessu stórmáli, og sem á að viðhafa í öðrum slíkum, að okkar mati í VG.“

Eftir stendur að alþjóðlegt athafnalíf og agnarsmár gjaldmiðill er ávísun á óviðunandi óstöðugleika og reglubundnar kollsteypur. Dýfur sem fyrst og fremst bitna á kjörum almennings í landinu. Þá framtíð getum við ekki búið komandi kynslóðum. Við verðum að draga rétta lærdóma af liðnum misserum til þess að koma í veg fyrir að nokkuð viðlíka hendi aftur.

Þjóðarblekkingin um að allt væri í stakasta lagi með EES-samningnum og sjálfstæðri mynt varð okkur dýrkeypt. Á henni og afleiðingunum bera stjórnmálamenn ríka ábyrgð og því stendur upp á stjórnmálalífið að hafa forystu um málefnalega og hófstillta umræðu um þá kosti sem í boði eru. Í stað þess að koma í veg fyrir að þjóðin finni bestu lausnina á vandanum og fyrirbyggi að hann sligi næstu kynslóðir Íslendinga og ógni afkomu fólksins í landinu.

Því er mikilvægt að hið sanna liggi fyrir, til að mynda um afdrif landbúnaðarins, áhrif á fullveldið og yfirráðin yfir auðlindum landsins. Af þeim málum hafa margir áhyggjur. Útkoman í þeim mun ráða úrslitum í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild og því er áríðandi að fara ítarlega í gegnum breytingar eða bætta stöðu eftir atvikum við aðild, borið saman við núverandi ástand.

Til að mynda hefur mér alltaf þótt erfitt að sætta mig við lýðræðishalla EES-samningsins. Ísland þarf samkvæmt honum að innleiða um 75% af regluverki sambandins án þess að hafa nokkurn aðgang að því lýðræðisverki sem smíðar það. Þetta á jafnt við um lög og reglur um fjármálamarkaði og annað sem samningurinn skuldbindur okkur til að innleiða.

Margt af því er reyndar mjög jákvætt. Samkeppnislög, umbætur í umhverfismálum, félagsleg réttindi launafólks, almenn aukin mannréttindi og svo mætti áfram telja. Hitt er verra, en það er sú staðreynd að með EES-samningi erum við í raun aðilar að Evrópusambandinu í flestum veigamiklum þáttum en höfum hverfandi möguleika á áhrifum við ákvarðanatöku.

Sú röksemd er algeng, að Ísland muni ekki skipta neinu máli eða hafa veruleg áhrif innan ESB gerumst við aðili. Víst er Ísland fámennt, en reynslan sýnir að smáríki gefa haft umtalsverð áhrif í málaflokkum sem þau varða mestu. Þetta kemur skýrt fram ef litið er til þess hvernig þjóðir á borð við Lúxembúrg, Finnland og Írland haga sínum störfum innan ESB. Þetta eru fámennar þjóðir, en hafa þó áhrif langt umfram mannfjölda sinn og landfræðilega stærð.

Veturinn sem ég bjó í Cork á Írlandi blöstu áhrif aðildar landsins að ESB við hvarvetna með afar jákvæðum hætti enda voru nánast allir heimamenn sem ég ræddi við jákvæðir í garð 25 ára aðildar þeirra að ESB. Þetta var ári áður en evran var tekin upp, en Írar voru í þjóðarhópnum sem tók hana upp strax árið 1999. Þátttaka ESB í uppbyggingu samgöngumannvirkja og innviða landsins var mjög afgerandi. Einnig þátttaka bandalagsins í eflingu menntakerfis landsins, en hvort tveggja var bókstaflega endurreist með aðild Íra að ESB árið 1973.

Þegar Írland gekk í ESB var það eitt fátækasta ríki Vesturlanda og þjóðartekjur margfalt lægri en þeirra sem næst bjuggu, Englendinga. Þremur áratugum eftir aðild voru þjóðartekjur Íra hins vegar orðnar hærri á mann en Englendinga, sem er ævintýraleg þróun á stuttum tíma. Litla, fátæka Írland bókstaflega sprakk út við aðild að ESB og fékk fjármuni og aðstoð til þess að breyta þjóðfélaginu úr fábrotnu landbúnaðarríki í fjölbreytt og manneskjulegt samfélag með sérstaka áherslu á að efla einangraða og niðurnídda landsbyggðina. Fjarskipti, vegir og skólar voru efld og byggð um allt landið og árangurinn lét ekki á sér standa. Landbúnaðurinn margfaldaðist að burðum, nútímavæddist og náði stöðu á mörkuðum hundruða milljóna Evrópubúa.

Andstæðingar Evrópusambandsins hér á landi nota Írland stundum sem dæmi um land sem fór sérstaklega illa út úr kreppunni, einmitt af því að Írar höfðu tekið upp evruna. Þá séum við Íslendingar nú betur staddir með okkar krónu – og í orðunum liggur að írska pundið hefði aldeilis riðið baggamuninn.

Vera má að slíkur málflutningur þjóni einhverri þjóðernisduld, en hann er beinlínis móðgandi við írska alþýðu og líklega vísvitandi útúrsnúningur á hugmyndinni um Evrópusambandið, sem er að stuðla að sameiginlegri velferð alla Evrópuþjóða, en ekki níðast á hinum smáu eða sölsa undir sig auðlindir þeirra.

Reynslan frá Írlandi er eitt rækasta merki þessa og um það þyrfti ekki að hafa nein orð, ef umræðan á Íslandi byggðist meira á staðreyndum og rökum, en ekki sleggjudómum og þvaðri. Það eitt ætti að nægja, að bera saman örlög írska seðlabankans og hins íslenska, næst þegar fyrrverandi bankastjóri hins síðarnefnda og nú ritstjóri Morgunblaðsins dregur lærdóm af hinum meintu óförum Írlands.

Alltaf hefur slegið mig einkennilega að betra sé að eiga áhrifalausa aukaaðild að ESB í gegnum EES-samninginn, heldur en að vera fullgildur þátttakandi með raunverulega möguleika til áhrifa. Fullmektug þátttaka í lýðræðislegu gangverki Evrópusambandsins er eitt af því sem knýr á um aðild að mínu mati enda myndi raunverulegt fullveldi landsins styrkjast mjög við aðild að sambandinu.

Því fullveldi fórnuðum við að hluta með EES-samningnum, en myndum endurheimta með fullri aðild, í stað þeirrar niðurlægjandi stöðu fyrir sjálfstætt ríki að bíða eftir næstu tilkynningu um innleiðingu laga og reglna frá ESB líkt og núverandi fyrirkomulag er.

 

TUTTUGASTI OG ANNAR KAFLI Kostnaðurinn við krónuna