TUTTUGASTI OG ÞRIÐJI KAFLI „Ófæddu börnin gráta ekki“

TUTTUGASTI OG ÞRIÐJI KAFLI

„Ófæddu börnin gráta ekki“

 

Annar þáttur mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu sem er mér sérstaklega hugleikinn snýr að landbúnaðar- og byggðamálum. Um þau álitaefni er lítið rætt af málefnalegri yfirvegun, en talsvert af fordómum og yfirdrifnum hræðsluáróðri um endalok landsbúnaðarins eins og við þekkjum hann, ef til aðildar kæmi.

 

Sá málatilbúnaður er að mínu mati fráleitur því að þótt aðild að Evrópusambandinu hefði í för með sér ýmsar breytingar á umhverfi landbúnaðar- og byggðamála, þá er fjarri því að hún yrði greininni til meira tjóns en gagns. Vissulega gætu sumir þættir landbúnaðar orðið fyrir ágjöf, en um leið yrði breytingin til þess að efla verulega aðra hluta hans, ekki síst sprotana og nýjar greinar.

 

Þessu samhliða er ég viss um að kosningin um það, hvort Ísland gengur í Evrópusambandið eða ekki, vinnist og tapist úti á landi. Þar eru efasemdirnar djúpstæðastar og þar hefur fólk mestu að tapa ef heimsendaspádómar andstæðinga aðildar gengju fram. Margir óttast breytingar og telja því vissara að halda sig innan núverandi fyrirkomulags þótt það sé hægt og bítandi að breyta sveitunum í svefnsvæði annars vegar og verksmiðjubú hins vegar.

 

Málaefnaleg og yfirveguð umræða um hag og afkomu dreifbýlis og landbúnaðar er því einn mikilvægasti þáttur þessa máls alls, auk þess hvernig yfirráðum yfir auðlindum landsins verður háttað ef til aðildar kemur.

 

Á mestu óvissutímunum haustið 2008 varð mörgum ljóst hversu mikilvægt er að þjóðin sé sjálfri sér næg um framleiðslu brýnustu matvæla, þótt það kosti skattgreiðendur fé að halda henni úti. Sú staða sem upp kom, að utanríkisverslun félli hugsanlega niður og gjaldeyrisþurrð gæti skapast, færði mörgum heim sanninn um að við yrðum að halda úti öflugum landbúnaði. Því þó að allt léki á reiði skjálfi og efnahagur landsins færi um mánaða skeið í uppnám þá gætum við altjent séð samfélaginu fyrir nauðþurftum og nauðsynlegum matvælum. Rétt eins og um stríðsástand væri að ræða.

 

Það er auðvitað gott að sæmilega almenn sátt ríki um stuðning við landsbyggð og landbúnað. Það styð ég sjálfur og hef alltaf gert. Fáir eða engir Íslendingar vilja sjá sveitirnar tæmast og matvælaframleiðslu leggjast af í stórum stíl. Enda er engin hætta á því nú. Við höfum byggt upp að mörgu leyti framúrskarandi landbúnað sem skilar þjóðinni vandaðri gæðavöru sem á erindi á hvaða markað sem er.

 

 

Tækifærin við inngöngu í ESB almennt fyrir mannlíf og atvinnulíf á landsbyggðinni á Íslandi eru bæði mörg og stór, ekki síst vegna þess að stuðningur ESB við dreifðar byggðir er fyrst og fremst búsetutengdur, en ekki tengdur tiltekinni framleiðslu.

 

Olav Veigar Davíðsson stjórnmálafræðingur skrifaði gagnmerka BA-ritgerð um áhrif aðildar Íslands að Evrópusambandinu á íslenskan landbúnað árið 2009. Olav dregur fram margs konar áhrif á landbúnaðinn og leitar fanga hjá bæði fylgjendum og fjendum aðildar. Meðal niðurstaðna hans er að þegar allt kemur til alls gæti landbúnaðurinn átt betra skjól innan ESB en utan.

 

Olav segir:

 

„Ekki er unnt að áætla með fullri nákvæmni hvaða fjárhæðir íslenskur landbúnaður fengi frá ESB. Talið er að stuðningur ESB til íslensks landbúnaðar og mótframlög íslenskra stjórnvalda gætu numið samtals meira en 5 milljörðum króna, að því gefnu að skilgreiningar á harðbýli og stuðningsbærri framleiðslu væru svipaðar og gert hefur verið í Svíþjóð og Finnlandi.

 

Raunar er ekki hægt að slá því föstu að núverandi landbúnaðarkerfi á Íslandi, og sú tollavernd sem landbúnaður nýtur, standist til langframa hvað sem ESB líður. Aðild Íslands að svokallaðri Doha-samningalotu á vegum WTO [Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar] gæti í framtíðinni falið í sér frekari opnun markaða þróaðri ríkja fyrir landbúnaðarafurðum frá þriðja heiminum. Rétt er að benda á að opinber stuðningur við landbúnað á Íslandi mun vera nálægt því hámarki sem samist hefur um á vettvangi WTO.

 

Vilji stjórnvöld halda áfram óbreyttum stuðningi við landbúnað á Íslandi og jafnframt hlíta skuldbindingum WTO þá kemur til greina að breyta fyrirkomulagi í stuðningi með því að færa hann í auknum mæli yfir í byggða- og uppbyggingastyrki sem þá falla ekki undir styrkjahámark WTO. M.ö.o. færa styrki til landbúnaðar meira í þá átt sem gengur og gerist innan ESB. Jafnframt hefur verið bent á að verði sú þróun í viðræðum við WTO og pólitískri stefnumótun á Íslandi, að stefnt sé að afnámi tolla, kann landbúnaðurinn að eiga betra skjól innan Evrópusambandsins en utan.“

 

Reynsla Finna og Íra er nærtækust í þessu efni. Afskekktar og einangraðar sveitir komust í samband við umheiminn í gegnum umfangsmiklar nettengingar, sem eru jafnmikilvægar á okkar tímum og bílfærir vegir voru á síðustu öld. Það er einn kjarninn í samvinnu Evrópubúa, að veita umtalsverðan stuðning til samgöngu- og fjarskiptabóta til þess að skapa skilyrði og grunnaðstöðu dreifbýlla svæða til jafns við þau þéttbýlli og þróaðri.

 

Þá gagnast grænar greiðslur til bænda vel til atvinnusköpunar á landsbyggðinni, styrkir sem hvert býli getur ráðstafað til þeirrar uppbyggingar sem ábúendur telja skynsamlega. Slíkar greiðslur, byggðatengdar en ekki til tiltekinnar framleiðslu, nýtast sérstaklega vel við nýsköpun í atvinnulífinu á landsbyggðinni og ekki veitir af nú þegar búum fækkar hratt með samþjöppun framleiðslunnar.

 

Þá er ég sannfærður um að samkeppnishæfni íslenska landbúnaðarins er gróflega vanmetin, bæði af forsvarsmönnum greinarinnar sjálfrar og í öllu almennu mati á stöðu hans. Landbúnaðurinn er að stórum hluta fastur í fjötrum framleiðslustýringar sem hefur orðið til þess að kaup á kvóta, réttinum til framleiðslu, er stærsti fjárfestingarliður í uppbyggingu búa, miklu stærri liður en húsbyggingar og fjárfesting í tækjakosti.

 

Hér, eins og í sjávarútvegi, er ekki nóg að vera framsýnn, duglegur og hafa vit á rekstrinum – það þarf að greiða þeim, sem fyrir eru, offjár fyrir að fá að framleiða.

 

Þetta fyrirkomulag veldur gríðarlegri skuldsetningu búa yngri bænda sem hafa þurft að kaupa sig inn í greinina. Þeir einir hagnast á þessu kerfi sem voru að framleiða á viðmiðunarárum kvótasetningarinnar, um og upp úr 1980. Öðrum bændum blæðir og samfélagið er fast í fákeppni og framleiðslustýringu.

 

Í aðildarferlinu gefst einstakt tækifæri til þess að fara í gegnum þetta fyrirkomulag og leita leiða út úr því, í stað þess að múra menn inni í því líkt og núverandi stjórnvöld hyggjast gera með því að gera framleiðslu á mjólk utan kvóta refsiverða. Það er makalaus fyrirætlan sem brýtur án efa gróflega gegn mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, en varpar um ljósi á þær ógöngur sem kerfið er í og hvaða galskapur tekur við þegar farið er að berja í bresti á fallanda kerfi sem elur af sér fákeppni og einokun.

 

Þó að kostirnir við aðild að sambandinu séu augljósir er jafnljóst að breytingarnar valda einhverjum hlutum landbúnaðarins tjóni. Í gegnum það þarf að fara hispurslaust, meðal annars með því að bæta bændum upp áföll sem þeir verða fyrir með uppbyggingu á öðrum sviðum.

 

Forysta Bændasamtakanna og þorri starfandi bænda í landinu hefur verulegar efasemdir um aðild og afleiðingar hennar fyrir greinina. Þeir hafa mætt til leiks í umræðuna gráir fyrir járnum og rekið áróður gegn aðild af mikilli hörku. Sumar efasemdir þeirra eru fullkomlega réttmætar enda blasa breytingar við, en aðrar eru ekkert annað en fráleitur hræðsluáróður sem er þeim ekki samboðinn. Því er enn mikilvægara en ella að fram fari heiðarleg og vönduð umræða um kosti og galla aðildar fyrir íslenskan landbúnað.

 

Auðvitað má nefna einn höfuðkost fyrir þá grein eins og alla aðra atvinnustarfsemi í landinu, þ.e. stöðugan gjaldmiðil, lægra vaxtastig og festu í efnahagslegu umhverfi. Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu er líklega fyrst og fremst leit þjóðarinnar að stöðugleika og fótfestu eftir þær stundum martraðarkenndu sveiflur sem við höfum upplifað síðustu áratugi.

 

Hrun gjaldmiðilsins kom sérstaklega þungt niður á mörgum bændum, bæði með stórhækkuðu verði á innfluttum aðföngum og hækkun skulda eftir mikinn uppbyggingartíma, til dæmis í mjólkurframleiðslu. Landbúnaður er atvinnurekstur og hefur sem slíkur sömu þörf fyrir stöðugt umhverfi og aðrir, en óttinn við aukna samkeppni og lækkun innflutningsverndar vegur á móti og skapar andstöðu innan greinarinnar.

 

Landbúnaðurinn verður að mínu mati aldrei markaðsvæddur til fulls og að því á ekki að stefna. Greinin verður áfram styrkt með tilliti til fæðuöryggis, menningar og búsetuskilyrða um landið allt. Hins vegar er ég sannfærður um að byggðatengdar greiðslur í stað framleiðslutengdra yrðu mjög jákvæð þróun fyrir landbúnaðinn í heild sinni, þótt breytingaferlið geti orðið sárt fyrir suma á meðan þeir aðlagast.

 

Það er markmið í sjálfu sér að auka mjög fjölbreytni í lífsháttum og atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Stuðningur minn við inngöngu Íslands í Evrópusambandið hefur alltaf verið skilyrtur við það að staða landbúnaðarins yrði varin til hins ítrasta í samningaviðræðum og staða landbúnaðar og byggðanna í heild sinni myndi batna en ekki versna.

 

Þess vegna þykir mér það í besta falli sorglegt hvernig samtök bænda haga sínum málfutningi fullum af fordómum, í stað þess að taka þátt í samningsgerðinni af fullri reisn. Í þessum efnum er ekkert gefið. Það vita margir bændur sem gera sér grein fyrir að í aðild geta falist mikil sóknarfæri fyrir landbúnaðinn.

 

Við eigum að gera allt sem við getum til að efla stöðu byggðanna, standa vörð um íslenskan landbúnað og gera hann að sjálfbærri og öflugri atvinnugrein en nú er. Möguleikar við aðild að ESB geta verið miklu fleiri en hafa komið fram í umræðunni og líklega er ómögulegt að við gerum okkur grein fyrir þeim öllum núna.

 

Þegar gerð EES-samningsins stóð yfir hafði Jón Baldvin Hannibalsson gjarna á orði: „Ófæddu börnin gráta ekki,“ og átti við að engin leið væri að segja fyrir um öll tækifærin sem leyndust í nýjum aðstæðum. Eitt skýrasta dæmið um óvænta möguleika í atvinnurekstri sem skapaðist með EES, en engan grunaði þá, er íslenski lyfjaiðnaðurinn. Hann var varla til í þá daga, en er með mikilvægustu stoðum atvinnulífsins núna, þrátt fyrir allt sem á hefur gengið.

 

Þróun landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins hefur verið sú að eiginleg framleiðslustýring hefur verið lögð af í formi kvótasetningar og mjólkurkvóti verður afnuminn frá og með árinu 2013. Því er ekki lengur valkostur að framleiðslutengja styrki til bænda eins og við þekkjum í hluta af okkar landbúnaðarumhverfi þegar kemur að framleiðslu á sauðfé og mjólk. Þess í stað er bændum tryggð ákveðin lágmarksafkoma í formi beingreiðslna, sem er byggð á sögulegri framleiðslu.

 

Að mörgu leyti er skynsamlegt að styðja við afkomu bænda með þeim hætti sem gert er í ESB. Bændur geta þar ráðstafað fjármagninu eftir öðrum leiðum en framleiðslunni einni saman. Síðan er gefið ákveðið svigrúm fyrir framleiðslutengda styrki norðan 62. breiddargráðu og er þar nærtækast að vísa til reynslu Finna. Finnska leiðin er mikilvægt fordæmi og gefur landbúnaðinum ekki bara svigrúm til aðlögunar heldur bendir til hvaða sérstöðu Íslendingar gætu notið við aðild að ESB.

 

Fordæmi sem sköpuð hafa verið í aðildarsamningum ríkja eins og Finnlands verða án efa mikill styrkur fyrir Ísland, þar sem ástæða er til að ætla að meðal annars verði unnt að skilgreina allt landið sem norðurslóðalandbúnað. Þar er ekki verið að tala um einhverjar óraunhæfar væntingar um varanlegar undanþágur, heldur nýjar skilgreiningar og reglur sem byggja á íslenskum aðstæðum. Það er fordæmi finnsku leiðarinnar í hnotskurn.

 

Slíkar breytingar geta fallið mjög vel að þróun íslenskrar byggðastefnu enda hafa margir sveitarstjórnarmenn litið með jákvæðum hætti til inngöngu í Evrópusambandið út af byggðastefnu sambandsins, sem um margt er til mikillar fyrirmyndar.

 

Allt frá því að stækkunarferli ESB hófst í byrjun sjöunda áratugarins hefur það haft í forgrunni efnahagslega uppbyggingu á þeim svæðum aðildarríkjanna sem lakast standa efnahagslega. Meginmarkmið sambandsins er að tryggja annars vegar frið í álfunni og hins vegar hagsæld og velferð allra aðildarríkjanna. Þess vegna hefur byggðastefna sambandsins skipt svona miklu máli.

 

Óbreytt landbúnaðarstefna felur í sér margar hættur fyrir dreifbýlið. Hún leiðir til fólksfækkunar og fleirri auðra svæða í sveitunum, þannig að dýrara verður að halda þar úti þjónustu og þar með verður dreifbýlið veikara. Gegn þessu þarf að sporna með pólitískri stefnumörkun og beinum aðgerðum sem aðildarferlið gefur einstakt tækifæri til.

 

Breytingar á íslenska landbúnaðarkerfinu eru bæði fyrirsjáanlegar og óumflýjanlegar, meðal annars vegna alþjóðaviðskiptasamninga sem kveða á um lækkun tolla og framleiðslutengds stuðnings innan tíðar, en hvort tveggja hefur verið inntak íslensku landbúnaðarstefnunnar.

 

Aðildarumsóknin að Evrópusambandinu gefur okkur kærkomið tilefni til þess að endurskoða fyrirkomulag mála hér frá grunni. Kjarni þeirra breytinga á að vera áframhaldandi stuðningur við landbúnað og dreifbýli – enda er það kjarni byggðastefnu Evrópusambandsins – með sem minnstri röskun á hag þeirra sem fyrir eru, en mjög eindreginni sóknar til nýsköpunar, aukinnar fjölbreytni og áherslu á framleiðslu og þjónustu sem byggir á staðbundinni sérstöðu.

 

Til þess verks eigum við að ganga óhrædd, keik og hvergi bangin. Tækifærin bíða og við eigum að grípa þau. Kyrrstaða er á endanum afturför. Íslenskur landbúnaður og íslenskt dreifbýli eiga miklu meira og betra skilið.

 

TUTTUGASTI OG FJÓRÐI KAFLI Vinstra megin við miðju